Fótbolti

Ancelotti liggur ekki á að ræða nýjan samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. Nordic Photos / Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segir að hann hafi enga þörf til að ræða við forráðamenn félagsins um nýjan samning á næstunni.

Ancelotti á eitt og hálft ár eftir af núverandi samningi sínum við félagið en Chelsea varð tvöfaldur meistari undir hans stjórn á síðasta tímabili.

„Ég er með samning við Chelsea til 2012 og vil virða hann," sagði Ancelotti við enska fjölmiðla. „Það er engin þörf á því að byrja að ræða um nýjan samning strax. Það er mikið eftir af tímabilinu."

„Kannski að leikmaður myndi hefja viðræður um nýjan samning á þessum tímapunkti en þjálfarar eru ekki eins og leikmenn. Aðstæður eru allt öðruvísi."

„Ef leikmaður missir af tveimur leikjum í röð yrði hann aldrei rekinn. En ef þjálfari tapar tveimur leikjum í röð gæti hann misst starfið."

Hann vill þó vera áfram í starfi hjá Chelsea. „Ég vona að ég verði áfram og mín vegna væri það ekkert mál að skrifa undir nýjan samning. En ég held að þetta verði ekki mitt síðasta starf í knattspyrnunni. Ég vildi gjarnan fá tækifæri til að þjálfa landslið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×