Fótbolti

Kaka: Ég er ekki búinn að vera ánægður með spilamennsku mína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kaka fagnar sigurmarki sínu um síðustu helgi.
Kaka fagnar sigurmarki sínu um síðustu helgi. Mynd/AFP
Brasilíumaðurinn Kaka er kominn aftur af stað með Real Madrid eftir að hafa verið meiddur í mánuð og byrjaði á því að tryggja Real-liðinu mikilvægan sigur eftir að hafa komið inn á sem varamaður um síðustu helgi.

„Ég er ekki búinn að vera ánægður með spilamennsku mína á þessu tímabili en aðalvandamálið hefur verið líkamlegi þátturinn. Ég er búinn að vera slæmur í skrokknum síðan ég kom hingað," sagði Kaka á blaðamannafundi í dag.

„Þegar ég verð betri í skrokknum þá mun spilamennska mín breytast. Ég verð ánægður og þá verða stuðningsmennirnir það líka," sagði Kaka.

Kaka er búinn að vera meiddur í mánuð en hann sagðist hafa fyrst meiðst í Meistaradeildarleiknum á móti Lyon þegar franska liðið sló Real Madrid út úr keppni í 16 liða úrslitunum.

„Ég fann ekki fyrir neinu í þeim leik. Ég fann ekki fyrir þessu fyrr en ég sparkaði í bolta laugardaginn á eftir," sagði Kaka sem var að glíma við kviðslit.

Það var mikið púað á Kaka í Lyon-leiknum enda var hann langt frá sínu besta. Hann segist vera vanur slíkur.

„Það var púað á mig í Sao Paulo, í Mílanó og með brasilíska landsliðinu. Allir leikmenn lenda í þessu og meira að segja bestu mennirnir fá að kenna á óánægju stuðningsmannanna þegar illa gengur. Ég veit að ég á eftir að upplifa góða tíma með þessum stuðningsmönnum í framtíðinni," sagði Kaka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×