Fótbolti

Kristianstad fékk ítalska landsliðsmarkvörðinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Picarelli í leik með ítalska landsliðinu.
Picarelli í leik með ítalska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Búið er að leysa markvarðavandræði sænska úrvalsdeildarfélagsins Kristianstad sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar.

Í morgun fékk félagið í gegn að fá undanþágu frá sænska knattspyrnusambandinu fyrir ítalska landsliðsmarkvörðinn Önnu Mariu Pacarelli sem er nú genginn til liðs við félagið. Hún getur því leikið með Kristianstad er liðið mætir Malmö í Íslendingaslag á sunnudaginn kemur.

„Þetta er gríðarlega mikill léttir," sagði Elísabet við Vísi. „Ekki síður fyrir Erlu Steinu," bætti hún við í léttum dúr.

Erla Steina Arnardóttir þurfti að leysa markvarðastöðuna í síðasta deildarleik þar sem að Sandra Wahlden, aðalmarkvörður liðsins, var meidd og verður lengi frá.

Elísabet var ánægð með að hafa fengið svo góðan markvörð til liðs við félagið. „Hún er mjög góð. Við mættum henni í Evrópukeppninni þegar ég var að þjálfa Val en hún lék þá með ítölsku meisturunum. Hún er undanfarið búin að vera á áhugamannasamningi í Bandaríkjunum og því gátum við fengið hana nú."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×