Fótbolti

Hércules vann Barcelona á Camp Nou í fyrsta leik Mascherano

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nelson Haedo Valdez fagnar fyrra marki sínu.
Nelson Haedo Valdez fagnar fyrra marki sínu. Mynd/AP
Nýliðar Hércules komu gríðarlega á óvart í kvöld með því að vinna 2-0 sigur á Spánarmeisturum Barcelona á Nývangi í spænsku úrvalsdeildinni. Nelson Haedo Valdez skoraði bæði mörkin í sitthvorum hálfleiknum.

Barcelona komst lítið áleiðis á móti skipulögðu liði Hércules sem vann þarna einn óvæntasta sigurinn í spænska boltanum í langan tíma.

Javier Mascherano spilaði þarna sinn fyrsta leik fyrir Barcelona en honum var skipt útaf í hálfeik og tók Xavi stöðu hans. Það breytti þó litlu því Barcelona-liðið var nánast óþekkjanlegt í þessum leik.

Nelson Haedo Valdez, 26 ára landsliðsmaður Paragvæ, kom Hércules í 0-1 á 27. mínútu og skoraði síðan annað markið sitt á 59.mínútu leiksins. Hann er að spila sitt fyrsta tímabil á Spáni eftir að hafa komið frá þýska liðinu Dortmund í sumar. Í fyrra markinu nýtti hann sér klaufagang í vörn Barca en það seinna kom eftir flotta sókn.

Barcelona var taplaust á síðasta tímabili á heimavelli sínum og vann þá 18 af 19 heimaleikjum sínum. Þetta tap gefur hinsvegar Real Madrid tækifæri á því að komast upp fyrir erkifjendur sína þegar þeir mæta Osasuna á Bernebau á eftir. Real hafði aðeins náð jafntefli í fyrstu umferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×