Innlent

Enn óvissa um stuðning við Icesave samkomulag

Mikil óvissa er um stuðning stjórnarandstöðunnar við nýtt Icesave samkomulag. Þingmenn Framsóknarflokksins eru að fara yfir málið og hafa ekki tekið afstöðu, en formaður flokksins segir mikilvægt að þjóðin eigi síðasta orðið.

Enn er óvissa um stuðning stjórnarandstöðunnar við nýtt Icesave samkomulag, en þingmenn liggja nú margir yfir gögnum málsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að heildarmyndin sé smátt og smátt að skýrast og áhættan virðist ennþá liggja öll hjá Íslendingum. Í ljósi reynslunnar sé mikilvægt að þingmenn taki sér tíma í að skoða samningana vandlega.

„Nú þegar það liggur fyrir að þetta verður ekki klárað fyrr en í janúar í fyrsta lagi þá held ég að menn hafi bara ákveðið að gefa sér tíma í rólegheitunum og séu ekki búnir að taka afstöðu til málsins," segir Sigmundur Davíð.

Hann segir mjög jákvætt að vextirnir séu lægri. „Í vaxtaupphæðinni er munurinn auðvitað gífurlegur, en aðrir hlutir eru kannski ekki eins breyttir og æskilegt hefði verið."

„Síðan er það stóra pólitíska spurningin. Er annars vegar ásættanlegt að láta þvinga sig til að gera eitthvað sem er ekki lagastoð fyrir. Og í öðru lagi, getur þingið kippt aftur til sín máli sem var búið að vísa til þjóðarinnar og klárað það án þess að þjóðin fái að eiga síðasta orðið," spyr flokksformaðurinn.

Sigmundur Davíð vill að þjóðin eigi síðasta orðið. „Ég var búinn að lýsa því yfir áður en þetta kom fram að óháð því hver niðurstaðan yrði þá þyrfti að klára þetta með þjóðaratkvæðagreiðslu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×