Innlent

Ráðning rædd í næstu viku

Sat í tíu ár Guðmundur Bjarnason gegndi starfi framkvæmdastjóra sjóðsins í áratug. Einn og hálfur mánuður er liðinn síðan ganga átti frá ráðningu eftirmanns hans.
fréttablaðið/róbert
Sat í tíu ár Guðmundur Bjarnason gegndi starfi framkvæmdastjóra sjóðsins í áratug. Einn og hálfur mánuður er liðinn síðan ganga átti frá ráðningu eftirmanns hans. fréttablaðið/róbert

Ráðning nýs framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs var ekki tekin fyrir á fundi stjórnar sjóðsins í gær. Annar stjórnarfundur verður hins vegar haldinn í næstu viku þar sem ráðning nýs forstjóra er á dagskrá.

Ganga átti frá ráðningu í embættið 1. júlí síðastliðinn í kjölfar þess að Guðmundur Bjarnason hætti störfum. Ásta H. Bragadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri sjóðsins, er starfandi framkvæmdastjóri. Hún er einn fjögurra umsækjenda sem voru metnir hæfir.

Hákon Hákonarson, stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs, segir það eðlilegt að fólk velti því fyrir sér af hverju svo langan tíma hefur tekið að klára ráðningarmál nýs framkvæmdastjóra. „Við erum á síðustu metrunum með þetta og það er ekki mikið meira um þetta að segja í augnablikinu,“ segir Hákon spurður hvað veldur töfunum.

„Þetta er búið að taka langan tíma, mun lengri en reiknað var með. Vonandi kemur það ekki að sök,“ segir Hákon jafnframt.

Eins og Fréttablaðið greindi frá 10. júlí síðastliðinn er talið að Ásta og Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi forstöðumaður hjá Landsbanka Íslands, komi helst til greina sem eftirmaður Guðmundar. Yngvi Örn hefur starfað sem ráðgjafi Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×