Körfubolti

NBA í nótt: Lakers enn ósigrað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pau Gasol var góður í nótt.
Pau Gasol var góður í nótt. Mynd/AP
LA LAkers er enn ósigrað í NBA-deildinni í körfubolta eftir sigur á Portland í nótt, 121-96.

Pau Gasol var með þrefalda tvennu í leiknum og er það í fjórða sinn á ferlinum sem hann nær því. Hann var með 20 stig, fjórtán fráköst og tíu stoðsendingar.

Lamar Odom bætti við 21 stigi og tólf fráköstum fyrir Lakers sem hefur unnið alla sjö leiki sína í deildinni til þessa. Lakers og New Orleans eru einu liðin í deildinni sem eru ósigruð til þessa.

Skotnýting Lakers utan af velli var 54,9 prósent og skoruðu sjö leikmenn liðsins minnst tíu stig í leiknum, þar af allir fimm byrjunarliðsmennirnir.

Andre Miller var með 20 stig fyrir Portland og Nicolas Batum sautján..

Þetta er þriðja besta byrjun í sögu Lakers sem var með forystuna allan leikinn í nótt.

Boston vann Oklahoma City, 92-83. Þetta var fimmti sigur Boston í röð en Ray Allen var með nítján stig, Paul Pierce sautján og Rajon Rondo með tíu stig og tíu stoðsendingar. Kevin Durant var með 34 stig fyrir Oklahoma City en það dugði ekki til.

Phoenix vann Atlanta, 118-114. Þetta var fyrsta tap Atlanta á leiktíðinni. Jason Richardson var með 21 stig og Steve Nash nítján fyrir Phoenix.

Detroit vann Golden State, 102-97. Rodney Stuckey var með 21 stig og níu stoðsendingar fyrir Detroit.

Houston vann Minnesota, 120-94, og þar með sinn fyrsta sigur á tímabilinu. Luis Scola var með 24 stig og Kevin Martin 21 fyrir Houston. Yao Ming var með þrettán stig og fjögur fráköst á þeim sextán mínútum sem hann spilaði.

Philadelphia vann New York, 106-96. Elton Brand skoraði 20 stig fyrir Philadelphia og þeir Lou Williams og Jrue Holiday voru með nítján hvor.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×