Lífið

Sjónrænir tónleikar Skmendanikku

hljóð og mynd Sex verk eftir fimm tónskáld verða flutt af Skmendanikku í kvöld
hljóð og mynd Sex verk eftir fimm tónskáld verða flutt af Skmendanikku í kvöld

Tónlistarhópurinn Skmendanikka sérhæfir sig í að flytja verk fyrir sértilbúin og heimagerð hljóðfæri. Í kvöld heldur hópurinn tónleika á tónlistarhátíðinni Sláturtíð.

„Verkin eru öll ný og verða frumflutt í kvöld. Þau eru öll samnin fyrir ný hljóðfæri og verða flutt af fjölhæfum hljóðfæraleikurum sem eiga það sameiginlegt að hafa lært á fleiri en eitt hljóðfæri,“ segir Áki Ásgeirsson tónskáld og forsvarsmaður samtakanna S.L.Á.T.U.R., Samtaka listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík.

Áki segir tónleikana örugglega verða upplifun fyrir bæði eyru og augu, enda hljóðfærin myndræn og nótnaskriftinni varpað á veggi.

S.L.Á.T.U.R. hefur haldið úti vinnustofu hljóðfæragerðar og hafa upp úr þeirri nýsmíð meðal annars komið hljóðfærin Halldórófónninn og Airwaves-rörið enda hefur hópurinn „djúpan skilning á því að til þess að búa til nýja menningu þarf ný verkfæri,“ eins og segir í tilkynningu.

Hópinn skipa þeir Frank Aarnink, slagverksleikari, Sturlaugur Björnsson, fyrrum hornleikari og bruggmeistari, og Snorri Heimisson, fagottleikari og stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins. Verkin eru Halanali eftir Guðmund Stein Gunnarsson, ónefnt eftir Inga Garðar Erlendsson, Flipp B og Find the B-flat eftir Jesper Pedersen, T-1 eftir Pál Ivan Pálsson og Duel eftir Þorkel Atlason.

Tónleikarnir hefjast klukkan níu í Útgerðinni í Grandagarði.- sbt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×