Syndir feðranna Brynhildur Björnsdóttir skrifar 16. júlí 2010 06:00 Í litlu samfélagi eins og á Íslandi verður það næstum hluti af refsingu fyrir glæpsamlegt athæfi að nafngreina glæpamenn og -konur opinberlega, í fjölmiðlum eða á netinu, þar sem allir þekkja alla og nafnið þitt segir hluta þjóðarinnar undir eins hver pabbi þinn er eða hvar þú gekkst í skóla. Þannig verður refsingin langvinnari og samfélagið allt tekur þátt í að fordæma hið ólöglega athæfi. Mannorðsmissirinn sem fylgir dómi fyrir glæp gæti jafnvel virkað letjandi á brotavilja, ekki síður en fangelsisdómur og sektir. Slíkar „refsingar götunnar" koma því miður oft niður á saklausum fórnarlömbum, fjölskyldum glæpamannanna sjálfra, foreldrum þeirra, mökum og þó sérstaklega börnum. Við sem samfélag höfum ekki verið neitt sérstaklega dugleg að verja þetta saklausa fólk, ættingja og vini þeirra sem brotlegir gerast við samfélagið. Skömm þeirra kemur niður á börnunum, jafnvel í marga liði, samanber lýsingu sem faðir minn fékk einu sinni á sér ókunnugum manni: já en veistu ekki að afi hans drap mann? Morðingjar, nauðgarar, þjófar og eiturlyfjasmyglarar eru allir nafngreindir og myndbirtir í fjölmiðlum án miskunnar. Það að kaupa sér samræði þykir greinilega skammarlegra en þjófnaður, morð, nauðgun eða eiturlyfjasmygl ef marka má umræðu í fjölmiðlum og netheimum og í réttarkerfinu, þar sem kapp hefur verið lagt á að vernda fjölskyldur nokkurra karlmanna sem ýmist eru ákærðir fyrir að kaupa vændi eða hafa verið sakfelldir fyrir það. Vændi er ekki elsta atvinnugrein í heimi. Það er þjófnaður. Áður en einhver, karl eða kona, bauð afnot af líkama sínum í skiptum fyrir mat, föt eða fé í fyrsta sinn reyndi hann eða hún alveg örugglega að stela. Undanfarna mánuði hefur samfélagið unnið hörðum höndum að því að úthrópa þjófa. Nöfn þeirra eru á allra vitorði og nefnd á hverju götuhorni, kaffihúsi og í grillveislu. Allir eiga þjófarnir börn sem hafa séð rauðu málninguna leka niður veggina á heimilum sínum og heyrt fjölmiðla úthúða foreldrum sínum og fjölskylduvinum. Syndir feðranna eiga ekki að koma niður á börnunum. Vonandi verður verndarhöndin sem haldið er yfir börnum þeirra sem vildu kaupa sér kynlíf framvegis til verndar öllum þeim börnum sem eiga fjölskyldumeðlimi sem gerast brotlegir við lög eða þiggja styrki í kosningasjóði. Því það sem er ólöglegt er ólöglegt og ef við nefnum einn glæpamann þá nefnum við þá alla. Það er réttlæti. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Brynhildur Björnsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun
Í litlu samfélagi eins og á Íslandi verður það næstum hluti af refsingu fyrir glæpsamlegt athæfi að nafngreina glæpamenn og -konur opinberlega, í fjölmiðlum eða á netinu, þar sem allir þekkja alla og nafnið þitt segir hluta þjóðarinnar undir eins hver pabbi þinn er eða hvar þú gekkst í skóla. Þannig verður refsingin langvinnari og samfélagið allt tekur þátt í að fordæma hið ólöglega athæfi. Mannorðsmissirinn sem fylgir dómi fyrir glæp gæti jafnvel virkað letjandi á brotavilja, ekki síður en fangelsisdómur og sektir. Slíkar „refsingar götunnar" koma því miður oft niður á saklausum fórnarlömbum, fjölskyldum glæpamannanna sjálfra, foreldrum þeirra, mökum og þó sérstaklega börnum. Við sem samfélag höfum ekki verið neitt sérstaklega dugleg að verja þetta saklausa fólk, ættingja og vini þeirra sem brotlegir gerast við samfélagið. Skömm þeirra kemur niður á börnunum, jafnvel í marga liði, samanber lýsingu sem faðir minn fékk einu sinni á sér ókunnugum manni: já en veistu ekki að afi hans drap mann? Morðingjar, nauðgarar, þjófar og eiturlyfjasmyglarar eru allir nafngreindir og myndbirtir í fjölmiðlum án miskunnar. Það að kaupa sér samræði þykir greinilega skammarlegra en þjófnaður, morð, nauðgun eða eiturlyfjasmygl ef marka má umræðu í fjölmiðlum og netheimum og í réttarkerfinu, þar sem kapp hefur verið lagt á að vernda fjölskyldur nokkurra karlmanna sem ýmist eru ákærðir fyrir að kaupa vændi eða hafa verið sakfelldir fyrir það. Vændi er ekki elsta atvinnugrein í heimi. Það er þjófnaður. Áður en einhver, karl eða kona, bauð afnot af líkama sínum í skiptum fyrir mat, föt eða fé í fyrsta sinn reyndi hann eða hún alveg örugglega að stela. Undanfarna mánuði hefur samfélagið unnið hörðum höndum að því að úthrópa þjófa. Nöfn þeirra eru á allra vitorði og nefnd á hverju götuhorni, kaffihúsi og í grillveislu. Allir eiga þjófarnir börn sem hafa séð rauðu málninguna leka niður veggina á heimilum sínum og heyrt fjölmiðla úthúða foreldrum sínum og fjölskylduvinum. Syndir feðranna eiga ekki að koma niður á börnunum. Vonandi verður verndarhöndin sem haldið er yfir börnum þeirra sem vildu kaupa sér kynlíf framvegis til verndar öllum þeim börnum sem eiga fjölskyldumeðlimi sem gerast brotlegir við lög eða þiggja styrki í kosningasjóði. Því það sem er ólöglegt er ólöglegt og ef við nefnum einn glæpamann þá nefnum við þá alla. Það er réttlæti.