Körfubolti

Benedikt til í að spila fimmta leikinn í Hveragerði

Elvar Geir Magnússon skrifar
Benedikt Guðmundsson. Mynd/Stefán
Benedikt Guðmundsson. Mynd/Stefán

KR-konur hafa sýnt að þær kunna vel við sig í blómabænum þar sem þær eru ósigraðar í vetur og það breyttist ekki í kvöld. Liðið vann Hamar örugglega og jafnaði metin í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í 1-1.

„Okkur gengur alltaf mjög vel hérna og þær vinna svo oftast í KR-heimilinu. Þetta er mjög sérstakt. Þær mega alveg eiga þennan fimmta leik ef af honum verður og hafa hann hérna. Til er ég!" sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, eftir leikinn.

„Það eru miklar sveiflur í svona seríum og maður getur ekki leyft sér að detta niður í eitthvað vonleysi þegar hlutirnir ganga ekki upp. Þegar þeir ganga má maður heldur ekki missa sig því þá fær maður það bara í bakið."

„Við lítum á þennan leik sem skref í átt að því markmiði sem við settum okkur. Mitt lið hélt haus mjög vel og á hrós skilið fyrir það," sagði Benedikt.

Liðin mætast í þriðju viðureigninni í úrslitunum í DHL-höllinni á miðvikudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×