Körfubolti

Barist um sætin inn í úrslitakeppnina í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður hart barist í kvöld og KR-ingurinn Helga Einarsdóttir og Hamarskonan Hafrún Hálfdánardóttir gefa örugglega ekkert eftir í sínum leikjum.
Það verður hart barist í kvöld og KR-ingurinn Helga Einarsdóttir og Hamarskonan Hafrún Hálfdánardóttir gefa örugglega ekkert eftir í sínum leikjum. Mynd/Stefán
Það verður mikil spenna í lokaumferð Iceland Express deildar kvenna í körfubolta í kvöld þegar það ræðst hvaða lið komast í úrslitakeppnina, hvaða lið situr hjá í fyrstu umferð ásamt deildarmeisturum KR og hvaða lið mætast í sex liða úrslitunum sem hefjast um næstu helgi.

KR og Haukar eru einu liðin sem eru með örugg sæti í úrslitakeppninni því KR hefur unnið deildarmeistaratitilinn og bikarmeistarar Hauka hafa þegar tryggt sér sigur í b-deildinni.

Keflavík og Hamar berjast um annað sætið í A-deildinni og þar með öruggt sæti í undanúrslitunum en tvö efstu lið deildarinnar sitja hjá í sex liða úrslitunum. Liðin mætast í þessum hreina úrslitaleik í Keflavík í kvöld og þar má Keflavík tapa með fjórum stigum án þess að missa annað sætið til Hamars. Vinni Hamar Keflavík með fimm stigum eða meira þá endar Hamar í öðru sætinu.

Grindavík er sem stendur í 4. sæti en á enn möguleika á þriðja sætinu vinni liðið deildarmeistara KR á heimavelli á sama tíma og Hamar vinnur með sjö stigum eða meira. Fari svo endar Grindavík í 3. sætinu og sendir Keflavík niður í fjórða sætið en Grindavík verður annars í 4. sætinu hvernig sem fer í öðrum leikjum.

Í b-deildinni er enn mikil barátta um hvaða lið fylgir Haukum inn í úrslitakeppnina. Njarðvík og Snæfell eiga bæði möguleika á öðru sætinu og þar með sæti í úrslitakeppninni. Ef Njarðvík vinnur Hauka á heimavelli í kvöld þá verða þær í öðru sætinu en tapi þær hinsvegar og Snæfell vinnur Val á útivelli þá kemst Snæfell inn í úrslitakeppnina.

Í sex liða úrslitum úrslitakeppninnar mætir liðið í 3. sæti A-deildar liðinu í 2. sæti b-deildar annarsvegar og hinsvegar mætir liðið í 4. sæti A-deildar liðinu í 1. sæti í b-deild sem er þegar ljóst að verður lið Hauka.

Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15 en þeir eru: Keflavík-Hamar, Grindavík-KR, Njarðvík-Haukar og Valur-Snæfell.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×