Grunsemdir um iðnnjósnir á að taka alvarlega Ólafur Þ. Stephensen skrifar 6. desember 2010 09:27 Skýrslur bandaríska sendiráðsins á Íslandi, sem Wikileaks komst yfir og íslenzkir fjölmiðlar hafa sagt frá undanfarna daga, eru um margt áhugaverðar þótt þar séu ekki uppljóstranir sem skekja samfélagið. Skýrslurnar veita fyrst og fremst innsýn í hvernig utanríkisþjónusta stórveldis vinnur og á köflum er fróðlegt að skoða hvernig mat starfsmenn sendiráðsins leggja á menn og málefni á Íslandi. Vinnubrögðin eru ekki frábrugðin því sem gerist annars staðar; íslenzkir sendimenn erlendis senda heim svipaðar skýrslur um stjórnmálaástand og samræður sínar við áhrifamenn í löndum þar sem þeir starfa. Hins vegar eru þessi skrif ekki ætluð fyrir almenningssjónir fyrr en eftir einhverja áratugi. Þess vegna er birting gagnanna nú vandræðaleg fyrir bandarísk stjórnvöld. Þeir sem ræða við erlenda sendimenn hljóta líka að hugsa sinn gang, nú þegar orðið er algengara en áður að slík gögn leki út. Rifja má upp þegar norskir fjölmiðlar birtu upplýsingar úr frásögn norska sendiherrans á Íslandi af fundi með forseta Íslands með erlendum sendimönnum skömmu eftir hrun, þar sem hann dembdi sér yfir Breta og ýjaði að því að réttast væri að bjóða Rússum herstöð á Íslandi. Líklega er gott að hafa í huga það sem Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði í Ríkisútvarpinu um helgina, að í samtölum við erlenda sendimenn eigi menn ekki að segja meira en þeir treysta sér til að standa við opinberlega. Í gögnunum eru hins vegar líka upplýsingar, sem íslenzk stjórnvöld hljóta að þurfa að bregðast við. Þar ber hæst grunsemdir bandarískra sendimanna um að Kínverjar stundi iðnnjósnir hér á landi, sem Fréttablaðið sagði frá á laugardaginn. Í skýrslum þeirra er meðal annars fullyrt að iðnnjósnirnar beinist að fyrirtækjum á sviði erfðagreiningar og læknisfræðilegra rannsókna. Þetta kemur út af fyrir sig ekki á óvart. Það er á margra vitorði að Kínverjar stunda umfangsmiklar iðnnjósnir í vestrænum ríkjum og heilu iðngreinarnar í Kína byggjast á stuldi á viðskiptaleyndarmálum. Íslenzk fyrirtæki eru í fararbroddi á heimsvísu á sumum sviðum, til dæmis Íslenzk erfðagreining. Það þarf því heldur ekki að koma á óvart að Kínverjar sýni slíku fyrirtæki áhuga, þótt auðvitað sé ekkert sannað um að þeir hafi njósnað um það. Sú spurning vaknar eðlilega hvað íslenzk stjórnvöld ætli að gera í málinu og hvernig þau hyggist vernda hagsmuni íslenzkra fyrirtækja. Krafa Íslenzkrar erfðagreiningar um athugun lögreglu er sjálfsögð og eðlileg. En hvernig er lögreglan í stakk búin að fylgjast með útlendingum sem kunna að vilja stela leyndarmálum íslenzkra fyrirtækja? Hvaða heimildir hefur hún til eftirlits með þeim? Svör þeirra tveggja ráðherra sem hafa tjáð sig um málið, þeirra Ögmundar Jónassonar og Össurar Skarphéðinssonar, benda til að þeir taki það ekki mjög alvarlega. Kannski er það til merkis um að það sé rétt mat hjá bandarískum sendimönnum að Íslendingar séu fremur áhugalausir um að taka ábyrgð á eigin öryggi og vörnum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Skýrslur bandaríska sendiráðsins á Íslandi, sem Wikileaks komst yfir og íslenzkir fjölmiðlar hafa sagt frá undanfarna daga, eru um margt áhugaverðar þótt þar séu ekki uppljóstranir sem skekja samfélagið. Skýrslurnar veita fyrst og fremst innsýn í hvernig utanríkisþjónusta stórveldis vinnur og á köflum er fróðlegt að skoða hvernig mat starfsmenn sendiráðsins leggja á menn og málefni á Íslandi. Vinnubrögðin eru ekki frábrugðin því sem gerist annars staðar; íslenzkir sendimenn erlendis senda heim svipaðar skýrslur um stjórnmálaástand og samræður sínar við áhrifamenn í löndum þar sem þeir starfa. Hins vegar eru þessi skrif ekki ætluð fyrir almenningssjónir fyrr en eftir einhverja áratugi. Þess vegna er birting gagnanna nú vandræðaleg fyrir bandarísk stjórnvöld. Þeir sem ræða við erlenda sendimenn hljóta líka að hugsa sinn gang, nú þegar orðið er algengara en áður að slík gögn leki út. Rifja má upp þegar norskir fjölmiðlar birtu upplýsingar úr frásögn norska sendiherrans á Íslandi af fundi með forseta Íslands með erlendum sendimönnum skömmu eftir hrun, þar sem hann dembdi sér yfir Breta og ýjaði að því að réttast væri að bjóða Rússum herstöð á Íslandi. Líklega er gott að hafa í huga það sem Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði í Ríkisútvarpinu um helgina, að í samtölum við erlenda sendimenn eigi menn ekki að segja meira en þeir treysta sér til að standa við opinberlega. Í gögnunum eru hins vegar líka upplýsingar, sem íslenzk stjórnvöld hljóta að þurfa að bregðast við. Þar ber hæst grunsemdir bandarískra sendimanna um að Kínverjar stundi iðnnjósnir hér á landi, sem Fréttablaðið sagði frá á laugardaginn. Í skýrslum þeirra er meðal annars fullyrt að iðnnjósnirnar beinist að fyrirtækjum á sviði erfðagreiningar og læknisfræðilegra rannsókna. Þetta kemur út af fyrir sig ekki á óvart. Það er á margra vitorði að Kínverjar stunda umfangsmiklar iðnnjósnir í vestrænum ríkjum og heilu iðngreinarnar í Kína byggjast á stuldi á viðskiptaleyndarmálum. Íslenzk fyrirtæki eru í fararbroddi á heimsvísu á sumum sviðum, til dæmis Íslenzk erfðagreining. Það þarf því heldur ekki að koma á óvart að Kínverjar sýni slíku fyrirtæki áhuga, þótt auðvitað sé ekkert sannað um að þeir hafi njósnað um það. Sú spurning vaknar eðlilega hvað íslenzk stjórnvöld ætli að gera í málinu og hvernig þau hyggist vernda hagsmuni íslenzkra fyrirtækja. Krafa Íslenzkrar erfðagreiningar um athugun lögreglu er sjálfsögð og eðlileg. En hvernig er lögreglan í stakk búin að fylgjast með útlendingum sem kunna að vilja stela leyndarmálum íslenzkra fyrirtækja? Hvaða heimildir hefur hún til eftirlits með þeim? Svör þeirra tveggja ráðherra sem hafa tjáð sig um málið, þeirra Ögmundar Jónassonar og Össurar Skarphéðinssonar, benda til að þeir taki það ekki mjög alvarlega. Kannski er það til merkis um að það sé rétt mat hjá bandarískum sendimönnum að Íslendingar séu fremur áhugalausir um að taka ábyrgð á eigin öryggi og vörnum.