Körfubolti

Leikmenn í NBA mögulega í verkfall á næsta ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwyane Wade, LeBron James og Chris Bosh eru meðal skærustu stjarna NBA-deildarinnar.
Dwyane Wade, LeBron James og Chris Bosh eru meðal skærustu stjarna NBA-deildarinnar. Mynd/AP

Svo gæti farið að næsta tímabil í NBA-deildinni í körfubolta fari seinna af stað en vanalega vegna verkfalls leikmanna.

Kjarasamningar leikmanna renna út í júlí næstkomandi og ganga viðræður um nýjan samning hægt á milli deildarinnar og leikmannasamtakanna.

Billy Hunter, framkvæmdarstjóri samtakanna, segist vera 99 prósent viss um að leikmenn boði til verkfalls.

Forráðamenn NBA-deildarinnar vilja stytta samningstíma leikmanna og skera niður laun þeirra um allt að 40 prósentustig.

Þetta vilja samtök leikmanna ekki sætta sig við. Aðilar ræðast ekki við eins og er en hugmyndir eru uppi um að funda næst í desember.

„Ég bíð nú þess að sjá einhver merki frá eigendunum um að þeir hafi áhuga á að komast að einhverju skynsamlegu samkomulagi. Þeir eru að haga sér mjög óskynsamlega eins og er. Ég veit ekkert hvenær þeir munu átta sig," sagði Hunter við bandaríska fjölmiðla.

Síðast fóru körfuboltamenn í Bandaríkjunum í verkfall veturinn 1998-99.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×