Körfubolti

Benedikt: Bættum vörnina í seinni hálfleik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs KR, er ekki byrjaður að fagna þó liðið sé komið í bílstjórasætið í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. KR vann Hamar örugglega í kvöld og er komið í 2-1 í einvíginu.

„Liðið sem vinnur þrjá leiki verður meistari og það skiptir engu máli hvort er á undan upp í tvo. Við leiddum allan leikinn fyrir utan fyrstu stigin. Við vorum að gera fullt af mistökum í þessum leik. Vörnin var töluvert betri í seinni hálfleik en þeim fyrri og það var lykillinn að þessu,“ sagði Benedikt.

Liðið getur orðið Íslandsmeistari með sigri í Hveragerði á laugardag en liðið hefur ekki tapað þar í vetur.

„Við þurfum að eiga algjöran toppleik á laugardaginn. Það er mjög auðvelt að mæta til leiks með einhverja værukærð í svona úrslitaleik eftir það sem á undan er gengið. En við mætum með einbeitingu í leikinn og góða vörn erum við í góðum málum.“

Unnur Tara Jónsdóttir átti stórleik fyrir KR, skoraði 33 stig og tók 8 fráköst. „Hún hefur verið svona alla þessa úrslitakeppni. Bara ógeðslega góð,“ sagði Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×