Skoðun

Mikilvægir styrkir

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar um þróunarstyrki leikskólaráðs

Nýlega fengu 16 leikskólar Reykjavíkurborgar afhenta þróunarstyrki leikskólaráðs. Mikil sátt er í leikskólaráði um að skera ekki niður þessa mikilvægu styrki sem veita skólunum tækifæri til að vinna með nýjar hugmyndir, auka samstarf á milli leikskóla, hefja samstarfsverkefni og stunda rannsóknir. Sumir telja að slíkir sjóðir geti beðið á meðan það versta gengur yfir í efnahagslífinu en það getur verið afar dýrkeypt. Ekki þarf alltaf fjármagn til að skólaþróun eigi sér stað en í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að veita starfsfólki stuðning til að hittast, gera tilraunir og tengjast.

Á síðastliðnum tveimur árum hefur umhverfi leikskóla, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, gengið í gegnum miklar öfgar. Fyrir hrun beindust öll spjót að leikskólum vegna manneklu, lokana og biðlista. Vegna manneklu var lítill tími til þróunar skólastarfs því öll orkan fór í að leita að starfsfólki. Atvinnulífið lét í sér heyra og foreldrar voru undir miklum þrýstingi og unnu mikið frá börnum sínum. Nokkrum vikum eftir hrun bankanna fylltust leikskólarnir af starfsfólki, ró færðist yfir starfsemina og foreldrar áttu fleiri samverustundir með börnum sínum. Starfsfólk á auðveldara með að vinna verkefni fyrir skólastigið þegar starfsmannahald er stöðugt og gott. Við tóku annars konar krefjandi verkefni sem fólu í sér samstarf og samvinnu foreldra, starfsmanna og borgaryfirvalda til að stuðla að hagræðingu í 10 milljarða króna leikskólakerfi.

Á þessu kjörtímabili hafa leikskólar þannig þurft að glíma við afar ólíkt ytra umhverfi. Alltaf er umhverfi barnsins, nám þess og umönnun, það sem allir leitast við að tryggja að sé til fyrirmyndar. Samkvæmt skoðanakönnunum eru foreldrar himinlifandi með leikskólana og börnin læra meira en við fullorðna fólkið getum ímyndað okkur. Þessi þjónusta og námsþróun leikskólabarna er aðeins tryggð til framtíðar með öflugu faglegu starfi í skólunum. Slíkt er nauðsynlegt að styðja við. Skólarnir þurfa tækifæri og tíma til að skoða og endurskoða og prófa eitthvað nýtt - allt með það að markmiði að hvert og eitt leikskólabarn blómstri.

Höfundur er borgarfulltrúi.

 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×