Körfubolti

NBA deildin: Meistaralið Lakers tapaði sínum fjórða leik í röð

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Chase Budinger leikmaður Houston í baráttunni gegn Pau Gasol og Matt Barnes
Chase Budinger leikmaður Houston í baráttunni gegn Pau Gasol og Matt Barnes AP

Meistaralið LA Lakers tapaði sínum fjórða leik í röð í NBA deildinni í gær og nú gegn Houston á útivelli 109-99. Þetta er í fyrsta sinn frá því í apríl árið 2007 þar sem Lakers tapar fjórum leikjum í röð.

Kevin Martin skoraði 22 stig fyrir Houston og Kobe Bryant skoraði 27 stig fyrir Lakers. Kínverski miðherjinn Yao Ming og bakvörðurinn Aaron Brooks léku ekki með Houston vegna meiðsla.

Ray Allen hélt áfram að skjóta þriggja stiga skotunum í liði Boston þrátt fyrir að hann hafi klúðrað fyrstu fimm skotunum gegn Houston á heimavelli í gær. Hinn þaulreynda þriggja stiga skytta skoraði þriggja stiga körfu 10 sekúndum fyrir leikslok og tryggði Boston fimmta sigurinn í röð, 99-95. Allen hitti aðeins úr þremur af alls tólf skotum sínum utan af velli. Paul Pierce skoraði 28 stig fyrir Boston. Kevin Garnett skoraði 17 og tók 8 fráköst og Rajon Rondo skoraði 10 og gaf 10 stoðsendingar. Shaquille O'Neal skoraði 14 fyrir Boston.

Wesley Matthews leikmaður Portland reynir að ná boltanum af Paul Pierce.

Stjörnulið Miami Heat landaði öruggum sigri á heimavelli gegn Detroit, 97-72, þar sem að góður varnarleikur einkenndi síðari hálfleikinn hjá Miami. LeBron James skoraði 18 stig og Chris Bosh og Dwayne Wade skoruðu 16 stig hvor fyrir Miami sem mætir Cleveland á útivelli í kvöld. Mikil spenna ríkir fyrir þann leik en það verður fyrsta heimsókn James á gamla heimavöllinn eftir að hann fór frá Cleveland til Miami s.l. sumar. Gríðarleg öryggisgæsla verður á leiknum en stuðningsmenn Cleveland eru allt annað en sáttir við ákvörðun James að yfirgefa liðið.

Russell Westbrook fór á kostum í liði Oklahoma í fjarveru Kevin Durant, stigahæsta leikmann NBA deildarinnar. Westbrook skoraði 38 stig í 123-120 sigri liðsins en leiknum lauk eftir þrjár framlengingar. Westbrook var ekki aðeins öflugur í sókninni en hann tók 15 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði öll 13 stig liðsins í síðustu framlengingunni.

Nick Collison leikmaður Oklahom brýst upp að körfunni og Derrick Favors úr liði Nets tekur hart á móti honum.

Blake Griffin lék vel í óvæntum sigri LA Clippers gegn San Antonio Spurs, 90-85. Clippers hafði tapað síðustu 18 leikjum sínum gegn Spurs en Clippers er með lélegasta árangur allra liða í deildinni, 4 sigra og 15 tapleiki. Griffin skoraði 31 stig og tók 13 fráköst fyrir Clippers en hann var valinn fyrstur allra í nýliðavalinu árið 2008 en missti af öllu síðasta keppnistímabili vegna hnémeiðsla.

 

Úrslit frá því í gær:

Houston - Lakers 109-99

Boston - Portland 99-95

New Jersey - Oklahoma 123-120

LA Clippers - San Antonio 90-85

Atlanta - Memphis 112-109

Toronto - Washington 127-108

Miami - Detroit 97-72

Chicago - Orlando 78-107

New Orleans - Charlotte 89-73

Dallas - Minnesota 100-86

Denver - Milwaukee 105-94

Utah - Indiana 110-88

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×