Fótbolti

Annar sigur AIK í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Valur Daníelsson.
Helgi Valur Daníelsson.

AIK er á góðri leið með að bjarga sæti sínu í sænsku úrvalsdeildinni en liðið vann 2-1 sigur á Halmstad í kvöld.

AIK varð sænskur meistari í fyrra en liðinu hefur gengið skelfilega í ár. Liðið er nú í fjórða neðsta sæti deildarinnar með 31 stig, fjórum stigum frá fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.

Helgi Valur Daníelsson spilaði allan leikinn með AIK í kvöld og Jónas Guðni Sævarsson fyrstu 71 mínútuna með Halmstad.

Halmstad er einu sæti fyrir ofan AIK með 32 stig. Tvö neðstu liðin falla úr deildinni og liðið í þriðja neðsta sæti þarf að fara í umspil. Þar er nú lið Åtvidaberg með 28 stig.

Ragnar Sigurðsson og Theodór Elmar Bjarnason spiluðu allan leikinn með IFK Gautaborg sem tapaði fyrir Trelleborg á heimavelli, 2-1. Hjálmar Jónsson var ónotaður varamaður hjá IFK.

IFK er í sjötta sæti deildarinnar með 39 stig. Á toppnum er Helsinborg með 61 stig, þremur meira en Malmö sem á leik til góða.

Það var einnig spilaði í Noregi í kvöld. Þar vann Brann 3-1 sigur á Kongsvinger. Birkir Már Sævarsson spilaði allan leikinn fyrir Brann en Gylfi Einarsson var ekki í leikmannahópi liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×