Skoðun

Predator (alien)

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Fyrir nokkrum dögum síðan sagðist borgarstjóranum í Reykjavík svo frá í sjónvarpinu, að hann væri „predator“ (ísl. rándýr) og „geimvera“ (e. alien). Þar sem undirritaður er ekki jafn vel heima um geimverur og Magnús Skarphéðinsson, formaður „Hins íslenska geimverufélags“ var tekið það ráð, að leita á náðir Wikipediu, alfræðiritsins á netinu, sem er handhægur nauðleitandi margra. Þar var leitað upplýsinga um hvað vitað væri um „predator (alien)“ Hvernig er sú vera? Og ekki stóð á svarinu.

Samkvæmt Wikipediu er vera sú afkvæmi tveggja bræðra (Johns og Jims). Verunni er þannig lýst, að hún sé stórvaxin, hugsandi tilfinningavera í mannsmynd sem ræður yfir háþróaðri tækni svo sem virku felugervi og orkuvopnabúnaði og getur ferðast milli stjarna. Í frekari umfjöllun er verunni m.a. þannig lýst, að hún skilji sig frá mannfólkinu með hærri vexti, efra skolti eins og á skordýri og löngum, hárlíkum lufsum (ekki minnst á háralit) úr höfði sem festar eru beint við sjálfa höfuðskelina. Þó svo veran hafi lifað af langdvalir á pólsvæðum (væntanlega í leit að hvítabjörnum fyrir fjölskyldugarða) þá uni hún sér þó til muna betur í heitari loftslagi. Blóð verunnar er sagt sjálflýsandi og grænt og sjón hennar byggist á innrauðri lýsingu og næmni fyrir hitageislun.

Þá er sagt frá næringarvenjum verunnar og næringarháttum hennar svo lýst að reglulega annan hvern dag þurfi hún að heimsækja sláturhús til þess að geta nærst á sláturafurðum (blóðmör og lifrarpylsu?).

Nú er það svo, að undirritaðan rak í rogastans því ekki kannast ég neitt við borgarstjórann okkar af þessari lýsingu – kannast í rauninni ekki við neinn, sem þessi lýsing á við enda hef ég aldrei umgengist geimverur. Svo heppilega vildi hins vegar til að ég rakst í leit minni hjá Wikipediu á tengil yfir á annan af fjölskyldunni Wiki – þ.e. upplýsingavefinn Wiktionary. Þar kom við fyrstu skoðun upp þessi setning: „1. (simile) to be completely at a loss“ (ísl. „að vera algerlega ruglaður“). Og Wiktionary gefur á þessu eftir­farandi útskýringu: „vera eins og álfur út úr hól (Icelandic)“

Nú er heima. Nú kannast ég við minn mann. Hann er hvorki geimvera né rándýr heldur alíslenskur. Að vísu ekki nákvæmlega eins og flestir hinir Íslendingarnir sem ber fyrir augu daglega – en íslenskur samt. Svona getur gerst ef leitað er að lýsingu á sjálfum sér og farið villur vegar í Wiki-fjölskyldunni.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×