Skoðun

Gegn umsókn eða aðild?

Svavar Gestsson skrifar
Hafin er mikil hreyfing gegn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Mjög áberandi í þeirri hreyfingu er Sjálfstæðisflokkurinn. Í greinargerð með tillögu til þings-ályktunar um að taka umsóknina til baka er tjaldað til röksemdum gegn umsókn fremur en aðild. Kvartað er um slælegan undirbúning stjórnvalda, kostnað við aðildarumsóknina og ágreining ríkisstjórnarflokkanna um málið! Ég hélt satt að segja að það væri kostur í augum andstæðinga ESB. Í greinargerðinni eru nefnd 20 atriði sem nær öll eru tæknilegs eðlis eða út í hött eins og það síðastnefnda.

Nú er það vitað að stjórnarflokkurinn Vinstri hreyfingin grænt framboð er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það kom skýrt fram í atkvæðaskýringum um umsóknartillöguna á Alþingi fyrir tæpu ári auk þess sem það hefur verið margstaðfest af flokknum. Það skyldi maður ætla að væri fagnaðarefni allra ESB-andstæðinga en þess sér ekki stað. Í umræðunum núna er allt reynt sem unnt er af hálfu Sjálfstæðis-flokksins til að gera lítið úr afstöðu VG sem er á móti aðild en vill engu að síður láta reyna á umsóknarferlið. Rök þessa fólks í VG hafa verið þau að það verði að afgreiða þetta mál ella hangi það yfir höfði landsmanna eins og óleyst gáta sem truflar alla eðlilega pólitíska einbeitingu. Þess vegna sé skynsamlegt að láta á málið reyna efnislega. Og svo er sagt að þjóðin ráði því sem mestu skiptir: Lokaafgreiðslu málsins. Með lýðræði. Raunar telja þessir andstæðingar ESB aðildar jafnvel að aðildin verði felld og að þetta sé greiðasta leiðin til að útkljá málið svo þeim líki.

Sumir segja: Samþykkjum umsókn til að fella aðild. Spurning er hins vegar hvort hin nýja mótmælahreyfing Sjálfstæðisflokksins gegn umsókninni - með óljósri afstöðu og tæknilegri til aðildar - kallar ekki á nauðsyn þess að þeir andstæðingar ESB aðildar sem styðja umsóknarferlið stofni sérstaka og nýja hreyfingu gegn aðild að ESB. Af því að þetta fólk styður engan veginn Sjálfstæðisflokkinn og vaxandi belging hans í ESB umræðunni þessa dagana.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×