Fótbolti

Ferguson: Meistaradeildin stærri en HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að það sé merkilegri árangur að vinna Meistaradeild Evrópu en heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu.

Ferguson býr sjálfur yfir reynslu af því að hafa þjálfað landslið á HM en hann stýrði skoska landsliðinu á HM í Mexíkó árið 1986. Hann hefur tvívegis unnið Meistaradeild Evrópu sem knattspyrnustjóri Manchester United.

United mætir Bursaspor í Tyrklandi í kvöld en United hefur oft leikið gegn stærri liðum og sterkari andstæðingum en þeim tyrknesku.

Ferguson segir að allar keppnir eigi sína hæðir og lægðir.

„Hafið þið séð síðustu sex heimsmeistarakeppnir? Þetta er þó líklegra skárra en að fara til tannlæknis."

„En þannig er þetta bara. Ef að Arsenal ætti leik gegn liði í neðri hluta deildarinnar myndu ekki jafn margir mæta og þeir myndu fá ef stórlið frá Evrópu kæmi í heimsókn. Né heldur væri spennan jafn þrungin og í leikjum Arsenal gegn Manchester United."

„Það er eins í Meistaradeild Evrópu. Ef að Inter mætir einu af litlu liðunum í keppninni munu ekki jafn margir mæta á völlinn."

„En það mikilvæga er að Meistaradeildin hefur sannað sig. Meistaradeildin er betri en HM. Hún er ótrúleg. Það eru margir frábærir leikir í henni."

„Það er vissulega rétt að maður þarf að komast í gegnum riðlakeppnina til að komast á virkilega spennandi stig í keppninni. Þetta er frábær keppni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×