Erlent

Neitar að upplýsa um ástæður þess að Venables var handtekinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Foreldrar Bulgers litna sem myrtur var árið 1993. Mynd/ AFP.
Foreldrar Bulgers litna sem myrtur var árið 1993. Mynd/ AFP.

Jack Straw, dómsmálaráðherra Breta, segir að það þjóni ekki hagsmunum almennings að upplýst verði hvers vegna barnamorðinginn Jon Venables var handtekinn í fyrradag. Innanríkisráðherra Breta telur hins vegar að almenningur eigi rétt á að vita það.

Venables og Robert Thompson myrtu hinn tveggja ára gamla James Bulger árið 1993, þegar þeir voru einungis tíu ára gamlir. Þeir voru dæmdir í fangelsi en fengu lausn á skilorði árið 2001. Venables var hins vegar handtekinn aftur í fyrradag vegna skilorðsrofs. Ekki hefur fengist gefið upp með hvaða hætti hann rauf skilorðið.

Straw sagði að sér þætti fyrir því að geta ekki gefið upplýsingar um þetta. Hann væri meðvitaður um að það væri áhugi fyrir því á meðal almennings að upplýst væri um ástæður þess að Venables var handtekinn. Hins vegar væru góð rök fyrir því að halda ástæðunni leyndri.

Straw sagði þó að almenningur þyrfti að vera meðvitaður um að ákvörðunin hefði verið tekin að yfirlögðu ráði. Málið myndi fara fyrir skilorðsnefnd sem myndi ákveða hvort Venables yrði áfram í haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×