Skoðun

Þorsteinn Siglaugsson :Hvað kosta lopapeysurnar?

Þorsteinn Siglaugsson skrifar

Undanfarið hafa ýmsir, þ.á.m. Fréttablaðið og hagdeild ASÍ, haft uppi stór orð um kostnað þjóðarinnar af því að ekki hafi verið gengið strax að kröfum viðsemjenda í Icesave-deilunni og af því að ríkið hafi ekki lagt stórfé úr vasa skattgreiðenda í ýmiss konar „atvinnuskapandi framkvæmdir". Útreikningarnir snúast um mismun á landsframleiðslu til mislangrar framtíðar með eða án þeirra greiðslna eða framkvæmda sem talsmennirnir vilja að gangi fram. Mismunurinn er síðan metinn sem tap þjóðarinnar.

Það sem reiknimeistararnir gleyma er að grundvallarmunur er á umsvifum og arði. Dragist velta fyrirtækis saman um 10% leiðir það vitanlega ekki af sér tap upp á 10%. Enn fráleitara er að gera ráð fyrir að samdrátturinn leiði af sér 10% tap árlega um alla framtíð líkt og sumir hafa haldið fram: Sé landsframleiðsla keyrð upp með handafli eitt árið verður hún minni sem því munar árið eftir.

Landsframleiðsla mælir ekki arðsemi heldur einungis umsvif í hagkerfinu. Því er rangt að telja breytingar á landsframleiðslu til hagnaðar eða taps. Stundum eru umsvif mikil en arðsemi engin. Þá mælist aukning í landsframleiðslu, en hún er innistæðulaus vegna þess að fjárfestingarnar sem byggt er á eru óarðbærar. Þetta á gjarna við um verkefni sem grundvallast á að misnota fé skattgreiðenda að þeim forspurðum líkt og þau sem hagdeild ASÍ og Fréttablaðinu virðist nú mest umhugað um að koma á koppinn.

En stundum breytist líka landsframleiðsla vegna breyttra lífshátta. Þegar húsmæður hætta t.d. að elda mat og prjóna eykst landsframleiðsla vegna þess að peningaleg viðskipti í hagkerfinu aukast. Þegar prjónaskapur og heimamatseld eykst hins vegar, eins og gerðist eftir hrun, dregur það úr landsframleiðslu. Kannski Fréttablaðið og ASÍ geri okkur grein fyrir stórfelldum kostnaði þjóðarinnar af öllum óprjónuðum lopapeysum og ósoðnu slátri framtíðarinnar?

Mergur málsins er að landsframleiðsla er mælikvarði á umsvif í hagkerfinu og þróun þeirra og breytingar á henni geta átt sér ýmsar orsakir. Því fer fjarri að beint samhengi sé milli landsframleiðslu og arðsemi í hagkerfinu. Þess vegna er fráleitt að nota breytingar á landsframleiðslu sem mælikvarða á kostnað eða ávinning af pólitískum ákvörðunum. Slíkt gerir enginn alvöru fræðimaður og enginn fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega.






Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×