Fótbolti

Messi vantar bara þrjú mörk til að jafna metið hans Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AFP
Lionel Messi á möguleika að jafna markametið hjá Barcelona í síðustu tveimur umferðunum í spænsku úrvalsdeildinni. Messi er búinn að skora 44 mörk í öllum keppnum á tímabilinu og vantar þrjú mörk til viðbótar til þess að jafna félagsmet Ronaldo. Metið er orðið þrettán ára gamalt eða níu árum yngra en Messi sjálfur.

Barcelona á eftir að spila við Sevilla á útiveli og Valladolid á heimavelli í síðustu tveimur leikjum sínum en Messi skoraði þrjú mörk í fyrri leikjunum gegn þessum liðum sem Barcelona-liðið vann með markatölunni 7-0.

Brasilíumaðurinn Ronaldo skoraði 47 mörk í 49 leikjum með Barcelona tímabilið 1996 til 1997 en 34 af þessum mörkum komu í spænsku deildinni.

Lionel Messi er búinn að skora 44 mörk í 51 leik þar af hefur hann skorað 31 mörk í 33 leikjum í deildinni. Messi skoraði 38 mörk í 51 leik á síðasta tímabili.

Barcelona er með eins stigs forskot á Real Madrid í baráttunni um spænska meistaratitilinn og gæti þurft á mörkum að halda frá Messi til að tryggja sér meistaratitilinn annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×