Innlent

Verðmunur á skólabókum mikill

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskólanema í nokkrum verslunum á höfuðborgarsvæðinu í fyrradag.

Griffill var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í könnuninni en Penninn-Eymundsson var oftast með lægsta verðið á notuðum bókum. Mál og menning var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum en Office 1 oftast með hæsta verðið á notuðum bókum.

Í könnuninni var verð á 27 algengum nýjum bókum skoðað í sex verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Að auki var verð á tíu notuðum bókum skoðað á fjórum skiptibókamörkuðum.

Verðmunur á milli skiptibókamarkaðanna var í flestum tilvikum í kringum 30 prósentum og munur á verði nýrra og notaðra námsbóka var oftast um eða yfir 100 prósent.

Mesti verðmunurinn á nýrri bók var rúm 100 prósent á skáldsögunni Lord of the Flies sem kennd er í ensku. Kostar bókin 981 kr. í Bóksölu stúdenta en 1.995 krónur í Pennanum-Eymundsson og Griffli.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×