Körfubolti

Ná Haukakonur að leika sama leik og í fyrra?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlendu leikmenn Haukaliðsins Heather Ezell og Kiki Lund.
Erlendu leikmenn Haukaliðsins Heather Ezell og Kiki Lund. Mynd/Heimasíða Hauka
Kvennalið Hauka í körfubolta hefur fengið góðan liðstyrk því danska landsliðskonan Kiki Lund mun spila með Íslandsmeisturunum út tímabilið. Lund er 26 ára skytta sem hefur leikið á Spáni undanfarið eina og hálfa árið. Haukar eru því fyrsta liðið í Iceland Express deild kvenna sem teflir fram tveimur erlendum leikmönnum í vetur.

Haukar léku sama leik í fyrra með góðum árangri en liðið bætti þá við sig erlendum leikmanni eftir áramót og tryggði sér síðan Íslandsmeistaratitilinn. Haukaliðið er nú í 6. sæti með 4 sigra í 11 leikjum en hefur tapað fjórum þeirra naumt og það hefur því vantað lítið upp á að liðið væri miklu ofar í töflunni.

Kiki Lund varð kosin besti leikmaður dönsku deildarinnar 2003-04 þegar hún spilaði með Horsnes Pirates og spilaði síðan í fjögur ár með Dayton-skólanum í bandaríska háskólaboltanum.  Lund var með 16,5 stig, 3,4 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali síðasta tímabil sitt með Horsens.

Lund var með 5,8 stig, 1,3 frákast og 1,5 stoðsendingar í leik með Dayton-skólanum en hún skoraði 154 þriggja stiga körfur í 120 leikjum með skólanum og nýtti meira 39 prósent langskota sinna.

Lund lék á síðustu leiktíð með liði Iniexsa Cáceres í spænsku b-deildinni þar sem að hún var með 9,3 stig, 2.5 fráköst og 1,5 stoðsendingu í leik en hún hitti þá úr 77 af 179 þriggja stiga skotum sínum í 30 leikjum sem gerir 3 prósent nýtingu.

Lund lék fyrir áramót með Arranz Jopisa Burgos í spænsku b-deildinni þar sem hún var með 2,5 stig að meðaltali á 10,3 mínútum í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×