Körfubolti

Spurs-liðið var á taugum yfir meiðslum Tony Parker

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker með félögum sínum í franska landsliðinu.
Tony Parker með félögum sínum í franska landsliðinu. Mynd/AFP

Tony Parker er þessa daganna á fullu að undirbúa sig undir Evrópukeppnina með franska landsliðinu en Frakkar taka þátt í undankeppni um síðustu sætin inn í úrslitamót EM sem fram fer í Póllandi í september. Parker varð fyrir meiðslum á ökkla og á mjöðm í æfingaleik á móti Austurríki.

Parker fór í rannsóknir á vegum franska landsliðsins þar sem kom í ljós að engin liðbönd voru slitin. Forráðamenn San Antonio Spurs treystu ekki alveg frönsku læknunum og heimtuðu að franski bakvörðurinn flygi alla leið til San Antonio í frekari rannsóknir. Þar fengu Spurs-menn staðfestingu á því að Parker hefði ekki meiðst alvarlega.

Parker fer síðan aftur til móts við franska landsliðið í þessari viku en ekki er þó ljóst hvort að hann geti verið með á móti Ítalíu í fyrsta leiknum í undankeppninni.

Áhyggjur forráðamanna San Antonio eru kannski ekki af ástæðulausu því Manu Ginobili missti af stórum hluta síðasta tímabils og allri úrslitakeppninni vegna meiðsla sem hann upprunalega fyrir þegar hann var að spila með Argentínu á Ólympíuleikunum í Peking.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×