Fótbolti

Van Nistelrooy stefnir á að komast í hollenska landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ruud van Nistelrooy í leik með hollenska landsliðinu.
Ruud van Nistelrooy í leik með hollenska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images

Ruud van Nistelrooy stefnir á að vinna sér aftur sæti í hollenska landsliðinu fyrir heimsmeistarakeppnina í Suður-Afríku næsta sumar.

Nistelrooy hætti með landsliðinu eftir EM 2008 til að einbeita sér að Real Madrid. Hann meiddist svo illa á hné í nóvember síðastliðnum en er nýlega byrjaður að spila aftur.

„Ég vil spila stórt hlutverk hjá Real Madrid og berjast fyrir því að komast aftur í landsliðið fyrir HM," sagði hann í samtali við spænska fjölmiðla.

„Ég vil sanna að meiðsli koma ekki í veg fyrir að ég haldi áfram að spila knattspyrnu. Það eru til mörg dæmi sem sýna að það er hægt, eins og Ronaldo sem varð heimsmeistari með Brasilíu eftir slæm meiðsli."

„Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina á mér sagði að ég gæti spilað í þrjú ár til viðbótar og að það yrðu engir eftirmálar eftir að ég hætti."

Nistelrooy á að baki 64 landsleiki með Hollandi og hefur skorað í þeim 33 mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×