Körfubolti

Bulls lagði Celtics í tvíframlengdum leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nýliði ársins, Derrick Rose, lék vel fyrir Bulls í kvöld.
Nýliði ársins, Derrick Rose, lék vel fyrir Bulls í kvöld. Nordic Photos/Getty Images

Chicago Bulls gerði sér lítið fyrir í kvöld og jafnaði rimmuna við meistara Boston Celtics. Bulls vann í kvöld, 121-118, og staðan í rimmunni 2-2.

Leikurinn var æsispennandi og þurfti að framlengja í tvígang. Celtics var þrem stigum undir í lok venjulegs leiktíma en Ray Allen setti niður þriggja stiga körfu sem tryggði Boston framlenginguna.

Boston var skrefi á undan alla framlenginguna. Þegar níu sekúndur voru eftir af framlengingunni kom Ray Allen í þriggja stiga forskot. Ben Gordon jafnaði með glæsilegri þriggja stiga körfu þegar tæpar fimm sekúndur voru eftir.

Rajon Rondo tók lokaskotið en brást bogalistin. Önnur framlenging blasti því við liðunum.

Bulls var skrefi á undan í næstu framlengingu. Boston gat jafnað með þriggja stiga körfu í síðustu sókninni sem rann út í sandinn.

Derrick Rose var stigahæstur hjá Bulls með 23 stig og tók þess utan 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Ben Gordon skoraði 17 stig.

Rajon Rondo var með þrefalda tvennu hjá Celtics - 25 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar. Ray Allen var stigahæstur með 26 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×