Körfubolti

Frumsýning hjá Keshu með Keflavík í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kesha Watson hefur ekki tapað í 15 síðustu leikjum sínum með Keflavík.
Kesha Watson hefur ekki tapað í 15 síðustu leikjum sínum með Keflavík. Mynd/Pjetur

Keflavík og KR leik fyrsta leik sinn í undanúrslitaeinvígi Iceland Express deildar kvenna í kvöld þegar bikarmeistararnir úr Vesturbænum heimsækja Íslandsmeistarana í Keflavík. Þetta verður fyrsti leikur Keflavíkur síðan 25. febrúar eða í heilar tvær vikur.

Kesha Watson er kominn til landsins og búin að vera með Keflavíkurliðinu í nokkra daga. Hún var meðal áhorfenda í DHL-Höllinni þegar KR vann öruggan 20 stiga sigur á Grindavík í oddaleik liðanna í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Síðustu fjórir leikir Keshu hér á landi hafa allir verið gegn KR. Síðasti leikur hennar með Keflavík og sá eini á þessu tímabili var þegar Keflavík vann 82-71 sigur á KR í úrslitaleik Powerade-bikarsins í Laugardalshöllinni 5. október.

Kesha var þá einnig nýkomin til landsins en hún var með 11 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og 6 stolna bolta í leiknum en hitti aðeins úr 4 af 16 skotum sínum.

Síðustu þrír leikir hennar þar á undan voru allir í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn á móti KR síðasta voru. Kesha var frábær í einvíginu og var kosinn besti leikmaðurinn. Hún var með 26,3 stig, 7,7 fráköst, 7,0 stoðsendingar og 91,7% vítanýtingu í leikjunum þremur.

Keflavík hefur unnið síðustu fimmtán leiki sína með Keshu innanborðs en síðasti tapleikur hennar hér á landi var í Grindavík í undanúrslitaleik Lýsingarbikarsins 3. febrúar 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×