Fótbolti

Robben ekki á leiðinni til Tottenham

Ómar Þorgeirsson skrifar
Arjen Robben.
Arjen Robben. Nordic photos/Getty images

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham er talið vera eitt af þeim félögum sem hafa áhuga á að fá hollenska landsliðsmanninn Arjen Robben í sínar raðir og spænskir fjölmiðlar greindu reyndar frá því að viðræður væru þegar hafnar á milli Tottenham og Robben.

Hans Robben, faðir leikmannsins og umboðsmaður, segir aftur á móti ekkert hæft í sögusögnunum.

„Það voru einhverjar sögusagnir um að umboðsmaður Robben hefði staðfest að viðræður við Tottenham væru hafnar en ég er sá eini sem vinn í þessum málum fyrir Robben og ég veit fyrir víst að það er ekkert í gangi. Eins og staðan er núna erum við einungis í viðræðum við Real Madrid. Ég er reyndar tilbúinn að veðja flösku af úrvalsvíni um að Robben spili ekki fyrir Tottenham á næstu leiktíð," segir Hans í viðtali við Algemeen Dagblad.

Hinn 25 ára gamli Robben kom til Real Madrid frá Chelsea á 24 milljónir punda í ágúst árið 2007 og skrifaði þá undir fimm ára samning við spænska félagið. Hann er þó í hópi leikmanna sem spænskir fjölmiðlar telja að Madridingar séu tilbúnir að hlusta á kauptilboð í, eftir komu Kaka og Cristiano Ronaldo til félagsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×