Körfubolti

Shaq heldur með Kobe

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Shaq í leik gegn Kobe.
Shaq í leik gegn Kobe. Nordic Photos/Getty Images

Samband þeirra Shaquille O´Neal og Kobe Bryant hefur löngum verið stormasamt þó svo samvinna þeirra á vellinum hafi fært Lakers titla á sínum tíma.

Þeir hafa þó virkað sem ágætir vinir síðustu misserin og nú síðast var Shaq að lýsa því yfir á Twitter-síðunni sinni að hann vilji sjá Kobe verða meistara á nýjan leik.

„Ég segi það í dag og aðeins í dag. Ég vil að Kobe Bryant nái í sinn fjórða hring. Látið alla vita," sagði Shaq á síðunni sinni.

Margra augu verða á Kobe i úrslitaeinvíginu en honum hefur ekki tekist að vinna NBA-titil síðan Shaq fór frá Lakers árið 2004.

Kobe var spurður að því á blaðamannafundi hvort hann yrði að vinna titil án Shaq til þess að styrkja stöðu sína sem einn af bestu leikmönnum sögunnar.

„Alls ekki. Þetta hefur ekkert að gera með Shaq. Fyrir mér snýst þetta bara um að vinna annan titil því ég vil vinna annan titil," sagði Kobe sem leiðist allt tal um að hann hafi ekki getað unnið án Shaq.

„Heldur fólk að Shaq hefði unnið án mín? Þeir sem halda því fram eru ruglaðir," sagði Kobe pirraður.

Neyðarlegt tap í úrslitum NBA-deildarinnar gegn Boston í fyrra situr enn í leikmönnum Lakers sem ætla að sýna sitt rétta andlit að þessu sinni og spá langflestir þeim sigri í rimmunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×