Fótbolti

Hollendingarnir missa af El Clasico

NordicPhotos/GettyImages

Hollendingarnir Arjen Robben og Wesley Sneijder verða ekki með liði Real Madrid í stórleiknum gegn Barcelona eftir tíu daga.

Robben tognaði í leiknum gegn Getafe í gærkvöld og búist er við því að hann verði frá í tvær til þrjár vikur. Þetta er í tíunda skipti sem hann meiðist á þennan hátt síðan hann gekk í raðir Real Madrid eftir því sem fram kemur í spænska blaðinu Marca í dag.

Landi hans Wesley Sneijder mun líklega missa af síðustu leikjunum á leiktíðinni eftir að hafa meiðst í sigri á Recreativo um daginn.

Þá þykir ljóst að portúgalski varnarmaðurinn Pepe verði ekki með Real í El Clasico, því hann var rekinn af velli fyrir glórulausa hegðun í leik gegn Getafe í gærkvöld og gæti átt yfir höfði sér langt keppnisbann.

Real á næst leik við Sevilla í deildinni um næstu helgi og um aðra helgi tekur liðið svo á móti Barcelona á Bernabeu, í leik sem gæti ráðið ansi miklu um hvaða lið hampar titlinum í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×