Fótbolti

Ronaldo: Hverrar krónu virði

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ronaldo í Evrópuleik.
Ronaldo í Evrópuleik.

Cristiano Ronaldo segir að þær 80 milljónir punda sem Real Madrid borgaði fyrir þjónustu sína sé sanngjarnt verði. Ronaldo verður formlega kynntur fyrir stuðningsmönnum á mánudag og segist ákveðinn í að sýna það að hann sé hverrar krónu virði.

„Ég er ákveðinn í að sýna það að peningum Real Madrid var vel varið," sagði Ronaldo sem er dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. Hann sló það met aðeins nokkrum dögum eftir að spænsku risarnir keyptu Kaka frá AC Milan.

„Bestu leikmennirnir kosta mikinn pening og ef þú vilt fá þá í þitt lið þá þarftu að borga. Ég er stoltur af því að vera dýrasti leikmaður heims. Real Madrid ákvað að borga þessa upphæð því þeir telja að ég sé þess virði," sagði Ronaldo.

„Ég er vanur því að vera undir mikilli pressu svo það er ekkert nýtt fyrir mér. Ég er alveg rólegur yfir þessu. Verðmiðinn á mér er ekki eitthvað sem ég hugsa út í þegar ég er kominn út á völlinn."

Ronaldo segir að Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, muni alltaf eiga sinn sess í hjarta sínu. „Hann hefur verið mér sem faðir og er einn mikilvægasti hlekkurinn á mínum ferli. Ég þakka honum fyrir allt sem hann hefur kennt mér," sagði Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×