Körfubolti

Haukar styrktu stöðu sína á toppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
La Kiste Barkus og Kristrún Sigurjónsdóttir eigast við.
La Kiste Barkus og Kristrún Sigurjónsdóttir eigast við. Mynd/Valli
Haukar unnu í kvöld sigur á Hamar í Iceland Express deild kvenna, 81-72, og styrktu þar meðs töðu sína á toppi deildarinnar.

Alls fóru þrír leikir fram í deildinni í kvöld. Keflavík, sem er í öðru sæti deildarinnar, vann Val og þá unnu Snæfellingar góðan sigur á Grindvíkingum.

Staðan í hálfleik í Hveragerði var 37-35, Hamar í vil, en Haukar komust yfir í þriðja leikhluta og létu forystuna ekki af hendi eftir það.

Slavica Dimovska skoraði 33 stig fyrir Hauka, Moneka Knight þrettán og Kristrún Sigurjónsdóttir ellefu auk þess sem hún tók níu fráköst.

La Kiste Barkus skoraði 36 stig fyrir Hamar og Julia Demirer 20 en báðar tóku þær tólf fráköst. Þær voru langstigahæstar í liði Hamars.

Keflavík vann Val, 80-74, en staðan í hálfleik var 48-43, Keflvíkingum í vil. Birna Valgarðsdóttir skoraði átján stig fyrir Keflavík og þær Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir og Rannveig Randversdóttir fjórtán.

Signý Hermannsdóttir var stigahæst hjá Val með átján stig. Kristín Óladóttir kom næst með fjórtán stig.

Snæfell vann góðan sigur á Grindavík, 81-68. Kirsten Green skoraði 23 stig fyrir Snæfell, tók ellefu fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 20 stig.

Helga Hallgrímsdóttir skoraði átján stig fyrir Grindavík og þær Íris Sverrisdóttir og Jovana Lilja Stefánsdóttir þrettán hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×