Fótbolti

Capello: Álagið á Barcelona-liðið ætti að hjálpa Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello, fagnar titlinum með Real Madrid 2007.
Fabio Capello, fagnar titlinum með Real Madrid 2007. Mynd/AFP

Fabio Capello, fyrrverandi þjálfari Real Madrid og núverandi landsliðsþjálfari Englendinga er á því að álagið á Barcelona-liðið gæti verið of mikið.

Spænska liðið er enn með í keppni um þrjá stóra titla. Þetta segir Capello að ætti að hjálpa Real Madrid í baráttunni um spænska meistaratitilinn.

Capello var í viðtali við spænska blaðið Marca fyrir Clasico-leikinn á laugardaginn þar sem Real Madrid tekur á móti Barcelona á Bernabeu.

Barcelona var um tíma með tólf stiga forskot á Real Madrid en nú munar aðeins fjórum stigum á liðunum þegar aðeins fimm umferðir eru eftir. Barcelona er auk þess komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar og úrslitaleik spænska bikarsins.

„Það eru of margir stórir leikir framundan hjá þeim. Þetta er mjög hættulegt fyrir lið," sagði Capello sem gefur ekki alltof mikið fyrir breiddina í Barcelona-liðinu.

„Það segja allir að Barcelona sé með tuttugu og eitthvað leikmenn í sínum hóp en sannleikurinn er bara sá að það eru fáir leikmenn sem ráða örlögum liðsins," sagði Capello.

Capello gerði Real Madrid að spænskum meisturum fyrir tveimur árum en þá vann liðið upp forskot Barcelona á lokasprettinum og vann titilinn á endanum á markatölu.

 














Fleiri fréttir

Sjá meira


×