Fótbolti

Real Madrid minnkaði forskot Barcelona í þrjú stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klaas Jan Huntelaar var á skotskónum á Spáni í kvöld.
Klaas Jan Huntelaar var á skotskónum á Spáni í kvöld. Mynd/AFP

Klaas Jan Huntelaar skoraði tvö mörk í 5-2 sigri Real Madrid á Athletic Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Real er þar með komið með 60 stig en Barcelona, sem leikur á morgun á útivelli á móti Almeria, er á toppnum með 63 stig.

Arjen Robben og Gabriel Heinze komu Real Madrid í 2-0 á fyrsta hálftímanum en Bilbao-menn náðu að jafna fyrir hlé. Fyrst skoraði Gabriel Heinze sjálfsmark og svo jafnaði Fernando Llorente þrátt fyrir að Bilbao liðið væri þá búið að missa mann útaf með rautt spjald.

Fran Yeste var rekinn útaf eftir að hann hrinti Iker Casillas, markverði Real, í kjölfar þess að Heinze hafði skoraði sjálfsmarkið.

Klaas Jan Huntelaar skoraði síðan tvö mörk í seinni hálfleik og Gonzalo Higuain innsiglaði síðan sigurinn af vítapunktinum á lokamínútunum.

Þetta var ellefti sigur Real Madrid í síðustu 12 deildarleikjum og sérstaklega mikilvægur fyrir liðið eftir 4-0 skellinn á móti Liverpool í Meistaradeildinni í vikunni.

„Það er jákvætt að við náðum að vinna á erfiðum útivelli og við eigum enn möguleika á titlinum. Nú vonum við bara að Almeria geri okkur greiða á morgun," sagði Casillas, markvörður Real Madrid í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×