Fótbolti

Barcelona vonast til þess að halda Eto'o

Ómar Þorgeirsson skrifar
Samuel Eto'o.
Samuel Eto'o. Nordic photos/Getty images

Forseti Meistaradeildarmeistara Barcelona Joan Laporta segir Katalóníufélagið vilja halda framherjanum Samuel Eto'o innan sinna raða, en ekki fyrir hvaða pening sem er.

Kamerúninn á eitt ár eftir af samningi sínum við Börsunga en Laporta segir að nýji samningurinn sem Eto'o verði boðinn muni vera innan launaþaks félagsins.

„Mikið af félögum vilja fá Eto'o en við viljum halda honum áfram á Nývangi og við munum gera okkar besta til þess að svo verði. Að mínu mati er hann besti framherji heims. Við ætlum að bjóða honum nýjan samning en við getum ekki sprengt launaþak okkar til þess að halda honum. Við verðum að vera skynsamir eins og staðan í fjármálaheiminum er núna og ég vona að hann skilji það. Það þarf tvo aðila til svo að samkomulag náist og við vonum að það gangi eftir á næstu vikum," segir Laporta.

Hinn 28 ára gamli Eto'o hefur meðal annars verið orðaður við Ítalíumeistara Inter og Manchester City en hann hefur skorað 108 mörk í 145 leikjum með Barcelona síðan hann kom til félagsins árið 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×