Körfubolti

Orlando ætlar ekki að missa Gortat - jafnaði óvænt tilboð Dallas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcin Gortat (til vinstri) stóð sig vel með Orlando Magic í vetur,
Marcin Gortat (til vinstri) stóð sig vel með Orlando Magic í vetur, Mynd/AFP

Dwight Howard getur áfram treyst á það að Marcin Gortat leysi sig af næstu fimm tímabilin því Orlando Magic hefur jafnað tilboð Dallas í pólska miðherjann sem var upp á 34 milljónir dollara fyrir fimm ára samning eða um 4,3 milljarða íslenskra króna.

Orlando-menn komu mjög á óvart með þessu en allir bjuggust við að Gortac myndi spila með Dallas Mavericks eftir að hann fékk svona gott tilboð frá Mark Cuban.

Marcin Gortat er 25 ára og 211 sm miðherji sem var með 3,8 stig og 4,6 fráköst að meðaltali á 12,0 mínútum með Orlando-liðinu. Hann átti möguleika að vinna sér sæti í byrjunarliði Dallas Mavericks en þess í stað verður hann áfram varamaður stjörnuleikmanns Orlando Magic, Dwight Howard.

Gortac var ekki alltof ánægður með þróun mála en hann ætti samt að vera sáttur við launaseðilinn sinn næstu fimm árin. Gortac, sem lék sitt fyrsta alvöru tímabil í vetur, fékk þá um 700 þúsund dollara í laun eða um 90 milljónir íslenskra króna. Hann hefur því fengið verulega kauphækkun eftir að hafa staðið sig vel í úrslitakeppninni.

Marcin Gortat var með þannig samning að ef hann fengi tilboð frá öðru liði en Orlando Magic þá gat alltaf Orlando haldið honum með því að bjóða honum eins samning. Það gerðu forráðamenn Magic og Pólverjinn er því ekkert á leiðinni úr sólinni á Flórída næstu árin.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×