Fótbolti

Barcelona og United vilja fá David Villa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Villa fagnar marki með spænska landsliðinu.
David Villa fagnar marki með spænska landsliðinu. Nordic Photos / AFP
Rafael Yuste, varaforseti Barcelona, hefur greint frá því að félagið eigi í viðræðum við Valencia um að festa kaup á David Villa, sóknarmanni félagsins.

Þá greindi Daily Mirror frá því í dag að Manchester United hefði einnig áhuga á honum og væri reiðubúið að borga 45 milljónir punda, meira en 50 milljónir evra, fyrir Villa.

Villa hefur einna helst verið orðaður við Real Madrid og Chelsea en hann er nú staddur í Suður-Afríku með spænska landsliðinu sem tekur þátt í Álfukeppninni þar í landi. Hann skoraði eitt marka Spánar í stórsigri liðsins á Nýja-Sjálandi í gær.

Valencia er í miklum fjárhagskröggum og er talið að félagið hafi krafist þess í viðræðum sínum við Real Madrid að fá 30 milljónir evra og Alvaro Negredo í kaupbæti.

„Viðræðurnar eru í fullum gangi," sagði Yuste. „Það hafa margir leikmenn áhuga á að ganga við félag eins og Barcelona sem hefur náð góðum árangri undanfarin ár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×