Körfubolti

Bryon Russell vill fá að spila við Jordan einn á einn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan fer framhjá Bryon Russell.
Michael Jordan fer framhjá Bryon Russell. Mynd/AFP

Michael Jordan gerði grín að Bryon Russell, fyrrum leikmanni Utah Jazz, í ræðu sinni þegar hann var tekinn inn í Frægðarhöll bandaríska körfuboltans á föstudaginn. Russell var að dekka Jordan þegar hann skoraði sigurkörfuna í síðasta leiknum sínum fyrir Chicago Bulls árið 1998. Russell flaug á rassinn eftir að hafa fengið smá hjálp frá Jordan og Jordan tryggði Bulls sjötta meistaratitilinn á átta árum.

Jordan talaði um í ræðu sinni að þeir hafi spilað leik eftir að Jordan hætti í fyrsta skiptið. Jordan var þá að spila hafnarbolta en kom við í æfingasal Chicago Bulls þar sem Utah Jazz var á æfingu. Russell var þá nýliði hjá jazz-liðinu og kom til Jordan, kynnti sig og bauð í hann einn á einn.

„Á þessari stundu var ég ekkert að hugsa um að koma aftur eða spila aftur körfubolta," sagði Jordan. „Bryon Russell kom til mín og spurði: Af hverju hættir þú. Þú vissir að ég gæti stoppað þig. Ef ég sé þig einhvern tímann í stuttbuxum," rifjaði Jordan upp í ræðunni en hann átti síðan eftir að fara illa með Russell í úrslitakeppninni nokkrum árum síðar.

Bryon Russell var ekkert alltof sáttur með að Jordan hafi verið að gera grín að sér og sendi Jordan skilaboð: „Hvenær sem þú ert tilbúinn þá mun ég bíða eftir þér í Kaliforníu í körfuboltabuxunum. Ég mun spila við þig hvenær sem er og ég bíð hér með í þig einn á einn," skrifaði Russell og bætti við:

„Hann hlýtur að geta flogið hingað á einkaflugvélinni sinni því hann á milljónir dollara og hefur efni á því. Við getum hist í Recreation Center og spilað," skrifar Russell sem hefur þurft í mörg ár að horfa upp á sjálfan sig sitjandi á rassinum á meðan Jordan er að setja "Skotið" niður.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×