Skoðun

Ný framtíðarsýn

Vigdís Hauksdóttir skrifar um uppbyggingu samfélagsins

Fortíðinni breytum við ekki en á framtíðina getum við haft áhrif. Á haustdögum varð hér kerfishrun. Allt traust hvarf á sama tíma. Við svona atburði verður að fara í endurskoðun á öllum stoðum samfélagsins. Ísland er lýðræðisríki með þingbundinni stjórn. Framtíðarsýn okkar framsóknarmanna er skýr, hún byggir á nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaþing hefur sett.

Án þess að ákveða fyrirfram innihald þeirrar stjórnarskrár má fullyrða að hún muni byggjast á stjórnarskrárformi lýðræðisríkja með fullkominni þrígreiningu ríkis­valdsins og valdtemprunarhugmyndum Montesquieu að löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið eiga að vera fullkomlega sjálfstæð og tempra vald hvers annars.

Hljóti tillögur okkar framsóknarmanna um niðurfellingu skulda heimila og fyrirtækja brautargengi má sjá til lands. Við teljum að með niðurfellingu þeirra sé verið að skapa svigrúm til að takast á við efnahagshrunið. Við getum ekki bundið þegna okkar í áframhaldandi skuldafangelsi með lengingu lána og skuldbreytingum. Flestar lánaforsendur eru brostnar og því verður að grípa til áður óþekktra aðgerða.

Ekki er nóg að fella niður skuldir því hér verður að tryggja atvinnu samhliða. Framsóknar­flokkurinn hefur ætíð verið atvinnumálaflokkur og haft hátt atvinnustig þjóðarinnar að leiðarljósi. Hér verða allir vinnubærir einstaklingar að hafa atvinnu. Lítil og meðalstór fyrirtæki skipta hér mestu ásamt nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Við þurfum að efla fyrirtæki í framleiðslu sem eru að framleiða raunverulega og áþreifanlega vöru en ekki afurð sem byggð er á lofti eða bleki á pappír. Hlúa þarf að þeim fyrirtækjum sem þegar eru í atvinnuskapandi rekstri og eru að skapa verðmæti.

Við viljum skynsama og hagkvæma nýtingu náttúru­auðlinda. Ísland á gnótt auðlinda og þær látum við aldrei af hendi til annarra þjóða. Með skynsamlegri auðlindastjórn komum við Íslandi aftur þangað sem við eigum að vera – að vera þjóð meðal þjóða.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×