Fótbolti

Sneijder vill vera áfram hjá Real

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Klaas-Jan Huntelaar fagnar marki í leik með Real Madrid.
Klaas-Jan Huntelaar fagnar marki í leik með Real Madrid. Nordic Photos / AFP

Hollendingurinn Wesley Sneijder vill vera áfram í herbúðum Real Madrid og berjast fyrir sæti sínu hjá liðinu.

Sneijder er einn sex Hollendinga sem voru með liðinu á síðastliðnu tímabili. En síðan að Manuel Pellegrino tók við liðinu hefur hann gert þeim ljóst að þeir eru ekki í framtíðaráætlunum hans fyrir liðið.

Aðeins einn Hollendinganna - Klaas-Jan Huntelaar - hefur verið seldur frá liðinu er hann fór fyrir fimmtán milljónir evra til AC Milan.

Sneijder hefur ítrekað verið orðaður við Inter Milan í sumar en hann segist vilja vera áfram hjá Real.

„Ég vil berjast fyrir sæti mínu þrátt fyrir mikla samkeppni," sagði Sneijder en hann var í hollenska landsliðshópnum sem mætti Englandi í gær. „Á fimmtudag (í dag) mun ég snúa aftur til Madrídar og þá fæ ég að vita meira."

„En ég vil ekki fara. Ég veit að félagaskiptaglugginn er opinn til mánaðamóta en það hefur ekkert breyst í mínu hugarfari."

Real Madrid hefur eytt 252 mlljónum evra í leikmannakaup í sumar. Liðið hefur fengið níu leikmenn til sín, þar af þá Kaka, Cristiano Ronaldo og Karim Benzema svo einhverjir séu nefndir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×