Fótbolti

Zidane: Real Madrid er enn á eftir Ribery

Ómar Þorgeirsson skrifar
Franck Ribery.
Franck Ribery. Nordic photos/Getty images

Fæst virðist benda til þess að Real Madrid sé hætt kaupæðinu á leikmannamarkaðnum í sumar. Fregnir frá Spáni í dag greindu frá því að félagið væri nálægt því að ganga frá kaupum á framherjanum David Villa frá Valencia.

Þá var í dag haft eftir Zinedine Zidane, fyrrum stórstjörnu franska landsliðsins og Real Madrid sem vinnur nú sem ráðgjafi spænska félagsins, í viðtali við RMC útvarpsstöðina að Real Madrid væri enn á höttunum eftir franska kantmanninum Franck Ribery hjá Bayern München.

„Við vonum að Ribery muni koma til okkar. Ég myndi vera glaður að taka á móti honum og hann yrði frábær í spænska boltanum," segir Zidane.

Zidane hefur miklar mætur á landa sínum Ribery en hann sagði fyrir skömmu að kantmaðurinn væri besti leikmaður í heim.

Uli Hoeness stjórnarformaður Bæjara lét hafa eftir sér í nýlegu viðtali að Ribery væri aðeins falur fyrir „brjálæðislega háa" upphæð en það hefur náttúrulega ekki stoppað Madridinga hingað til.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×