Körfubolti

Umfjöllun: Sameinað átak kom KR-konum aftur á sigurbrautina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unnur Tara Jónsdóttir sést sér á flugi í leiknum í kvöld.
Unnur Tara Jónsdóttir sést sér á flugi í leiknum í kvöld. Mynd/Valli

KR-konur eru komnar aftur á sigurbraut í kvennakörfunni eftir fimmtán stiga sigur á Keflavík, 70-55, í DHL-Höllinni í kvöld. Það má segja að frábær liðsvörn og sameinað átak í sókninni hafi lagt grunninn að sigrinum eitthvað sem KR-liðið hefur farið langt á í vetur en vantaði tilfinnanlega í bikartapinu á móti Hamar á dögunum.

„Þetta vorum við í dag," sagði Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði KR eftir leikinn en hún gat nú beitt sér á fullu á ný eftir að hafa verið í basli með bakið á sér í síðustu leikjum.

Hildur var ein af fimm leikmönnum KR-liðsins sem skoruðu á milli 9 til 15 stig en atkvæðamest var Unnur Tara Jónsdóttir sem átti flotta innkomu af bekknum.

KR-liðið tók frumkvæðið í byrjun og var 18-10 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Keflavíkurliðið átti nokkra spretti sem hélt þeim inn í leiknum en liðið varð fyrir áfall þegar 6 mínútur og 22 sekúndur voru eftir af öðrum leikhluta þegar Bryndís Guðmundsdóttir meiddist á ökkla.

Staðan var þá 22-15 fyrir KR og Bryndís var þegar búin að taka 10 fráköst í leiknum. KR vann næstu sex mínútur 11-1 og var á endanum með 16 stiga forskot í hálfleik, 35-19. Keflavíkurliðið missti algjörlega taktinn við brotthvarf Bryndísar.

„Lífið er bara þannig að það á að koma maður í manns stað en það gerði það ekki. Við misstum trúna um leið og hún fór útaf," sagði Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur en hann hefur ekki áhyggjur af meiðslum Bryndísar þó að hún hafi ekki spilað meira í leiknum.

Birna Valgarðsdóttir skoraði reyndar 9 stig á fyrstu 4 mínútum seinni hálfleiks og Keflavík kom muninum niður í níu stig, 40-31. Nýju þjálfarar KR-liðsins, Hörður Gauti Gunnarsson og Finnur Freyr Stefánsson, tóku þá leikhlé og liðið svaraði með því að vinna næstu þrjár mínútur 12-0. Sigur KR var aldrei í hættu eftir það. á ný.

Birna Valgarðsdóttir vaknaði ekki fyrr en í seinni hálfleik og skoraði þá 20 af stigum sínum en það hafði líka mikil áhrif að Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir klippti nánast Kristi Smith út úr leiknum. Kristi skoraði flest öll stigin sín þegar Gróa sat á bekknum.

Unnur Tara Jónsdóttir átti mjög flotta innkomu af bekknum hjá KR en eins áttu Hildur, Signý Hermannsdóttir og Margrét Kara Sturludóttir fínan dag, Jenny Pfieffer-Finora setti niður nokkur góð langskot og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var flott í vörninni.

KR-Keflavík 70-55 (35-19 í hálfleik)

Stig KR: Unnur Tara Jónsdóttir 15, Jenny Pfeiffer-Finora 12, Hildur Sigurðardóttir 11 (9 fráköst, 5 stoðsendingar), Signý Hermannsdóttir 11 (14 fráköst, 6 varin skot), Margrét Kara Sturludóttir 9 (9 fráköst, 4 stoðsendingar, 4 stolnir), Guðrún Þorsteinsdóttir 6, Helga Einarsdóttir 5, Jóhanna Sveinsdóttir 1.

Stig Keflavíkur: Birna Valgarðsdóttir 22 (9 fráköst, 4 varin skot, 3 stolnir), Kristi Smith 14 (8 fráköst, hitti aðeins úr 5 af 18 skotum), Marín Rós Karlsdóttir 9, Bryndís Guðmundsdóttir 4 (10 fráköst á 14 mín.), Rannveig Randversdóttir 2, Svava Stefánsdóttir 2, Hrönn Þorgrímsdóttir 1, Telma Ásgeirsdóttir 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×