Fótbolti

Þjálfari Barcelona við dómarana: Passið upp á Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi er frábær leikmaður.
Lionel Messi er frábær leikmaður.

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, hefur miklar áhyggjur af þeim hörðu tæklingum sem Argentínumaðurinn frábæri, Lionel Messi, verður fyrir í leikjum Barcelona-liðsins.

"Það kemur að því að hann meiðist illa. Upp á síðkastið er hann sparkaður niður um leið og hann snertir boltann," sagði Guardiola á blaðamannafundi en það er mjög erfitt að stoppa Messi þegar hann er kominn á ferðina.

"Það er skylda dómara að verja leikmenn fyrir svona árásum. Það á ekki bara við Messi heldur alla leikmenn," sagði Guardiola sem er greinilega ekki sama lengur um móttökurnar sem Messi er að fá í leikjum.

Messi sem er aðeins 21 árs gamall hefur leikið frábærlega með Barcelona í vetur og er sem dæmi búinn að skora 17 mörk í 22 leikjum í spænsku deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×