Körfubolti

Tölfræðin í NBA: Wade stigakóngur

Dwyane Wade var stórkostlegur með Miami í vetur.
Dwyane Wade var stórkostlegur með Miami í vetur. Nordic Photos/Getty Images

Nú þegar deildarkeppninni í NBA deildinni er lokið er ekki úr vegi að skoða hvaða leikmenn skáru fram úr í helstu tölfræðiþáttum í vetur.

Skotbakvörðurinn Dwyane Wade hjá Miami Heat varð í fyrsta sinn á ferlinum stigakóngur í deildinni, en hann skoraði að meðaltali 30,2 stig í leik í vetur. LeBron James hjá Cleveland kom næstur með 28,4 stig og Kobe Bryant hjá LA Lakers var þriðji með 26,8 stig í leik.

Tveir aðrir kappar urðu hlutskarpastir í tveimur tölfræðiþáttum, þeir Dwight Howard hjá Orlando og Chris Paul frá New Orleans.

Howard leiddi deildina í fráköstum með yfirburðum. Hann hirti 13,8 fráköst að meðaltali í leik, tveimur fleiri en Troy Murphy hjá Indiana sem varð annar með 11,8 fráköst í leik. David Lee hjá New York kom þar skammt á eftir með 11,7 fráköst í leik.

Howard var einnig öflugastur í að verja skotin í vetur. Howard varði 2,92 skot að meðaltali í leik, en Chris Andersen hjá Denver kom næstur með 2,46 skot í leik. Andersen spilaði aðeins 20 mínútur að meðaltali í leik, svo það verður að teljast mikið afrek hjá honum að ná svo hátt á listanum. Marcus Camby hjá Denver og Ronny Turiaf hjá Golden State vörðu 2,13 skot í leik.

Chris Paul og Dwight HowardNordicPhotos/GettyImages

Chris Paul hjá New Orleans Hornets átti stórkostlegt ár og hann varð efstur í stoðsendingum með 11 slíkar að meðaltali í leik. Deron Williams hjá Utah var annar með 10.7 stoðsendingar í leik og Steve Nash þriðji með 9,7.

Paul var einnig mesti boltaþjófurinn í deildinni með 2,77 stolna bolta í leik. Dwyane Wade kom næstur með 2,19 og Jason Kidd þriðji með 1,98.

Shaquille O´Neal hjá Phoenix var með bestu skotnýtinguna í tíunda sinn á ferlinum sem er met. Hann átti gamla metið með Wilt Chamberlain. O´Neal nýtti 60,88% skota sinna í vetur, Nene Hilario hjá Denver 60,37% og Andris Biedrins hjá Golden State 57,79%

David Lee hjá New York náði flestum tvennum í vetur (yfir 10 í tveimur tölfræðiþáttum) eða 65. Dwight Howard náði 63 tvennum og Chris Paul hjá New Orleans 50 slíkum.

LeBron James náði 7 þreföldum tvennum í vetur (yfir 10 í þremur tölfræðiþáttum). Jason Kidd náði 6 þrennum og Jason Kidd 3, þar af einni í síðasta leik tímabilsins í nótt.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×