Skoðun

Grunnurinn gleymist

Jón Gunnarsson skrifar
Það hefur aldrei þótt góðri lukku að stýra að byggja hús sitt á sandi. Það uppbyggingarstarf sem framundan er í íslensku samfélagi er líkast uppbyggingu frá grunni. Ef rétt byggingarstæði er valið mun byggingin rísa fyrr og standa betur. Í umræðunni um málefni dagsins, s.s. IceSave, aðildarviðræður við Evrópusambandið og fleiri slík stórmál, gleymist gjarnan að ræða aðalatriðið, það á hverju á að byggja viðreisnina; með hverju þessi þjóð ætlar að greiða skuldbindingar sínar.

Tækifæri okkar til atvinnuuppbyggingar eru nánast óþrjótandi. Við fengum samþykkt sérstakt íslenskt ákvæði í Kyoto-samningnum m.a. vegna sérstöðu okkar til náttúruvænna möguleika í orkuöflun. Gæta verður þeirra hagsmuna í þeim viðræðum sem framundan eru um loftslagsmál. Við höfum ratað skynsamlega leið milli nýtingar og verndunar í okkar náttúru. Tækifærin eru víða og til að ná alvöru viðreisn í gang verðum við að nýta þau. Sú vinstri stjórn sem nú er við völd hefur engin alvöru markmið um atvinnuuppbyggingu. Stuðningur við þau verkefni sem komin voru af stað er veittur með semingi. Mannfrekum framkvæmdum í samgöngumálum er slegið á frest. Afleiðingarnar eru þær að í mörgum stéttum er að skapast atgervisflótti og óvíst er að það fólk snúi til baka.

Það er brýnt að halda áfram á þeirri braut uppbyggingar í stóriðju sem vörðuð hefur verið. Þar liggja tækifæri okkar til atvinnu- og verðmætasköpunar. Tímabundið vandamál vegna fjármögnunar virkjana s.s. við Búðarháls og í Reykjahlíð er auðleyst. Landsmenn hafa lagt það mikið til hliðar í lífeyrissjóðakerfinu að slík rök halda ekki. Lífeyrissjóðirnir verða ekki notaðir í nokkuð betra nú en að fjármagna atvinnuskapandi arðbærar framkvæmdir. Aukin umsvif í atvinnulífinu verða fljótlega til þess að auka á bjartsýni innanlands og traust okkar útávið. Við verðum að vera tilbúin að veðja á okkur sjálf og auðlindir þessa frábæra lands sem við byggjum.

Tökum þennan slag með þeim krafti sem við eigum.

Höfundur er alþingismaður.








Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×