Körfubolti

Ég átti ekki skilið að komast í stjörnuliðið

Steve Nash var öllu auðmjúkari en Carmelo Anthony
Steve Nash var öllu auðmjúkari en Carmelo Anthony NordicPhotos/GettyImages

Tvöfaldur verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar, Steve Nash hjá Phoenix Suns, segist ekkert hafa að athuga við þá staðreynd að hann var ekki valinn í stjörnuliðið að þessu sinni.

Mörgum þótti blóðugt að sjá þennan frábæra leikmann ekki á meðal þeirra bestu í stjörnuleiknum þann 15. febrúar, en leikurinn fer einmitt fram í Phoenix að þessu sinni.

"Satt besta að segja, þá á ég það eiginlega ekki skilið," sagði Nash þegar hann var spurður út í stjörnuliðið. "Lið okkar er í sjöunda sæti í Vesturdeildinni. Þetta hefði kannski verið önnur saga ef við hefðum verið í fjórða eða fimmta sæti. Það voru einfaldlega leikmenn sem áttu meira skilið að spila stjörnuleikinn en ég," sagði Nash.

Framherjinn Carmelo Anthony var ekki alveg jafn auðmjúkur þegar hann komst að því að hann hefði ekki verið valinn í stjörnulið Vesturdeildarinnar.

"Ég er dálítið súr, já," sagði Anthony á æfingu Denver í dag - en hann er nú að snúa til baka eftir að hafa verið frá vegna meiðsla í síðustu tíu leikjum liðsins. Hann segir meiðslin hafa haft sitt að segja.

"Auðvitað er þetta af því ég var meiddur. Ég held að ég hafi ekki gert neitt af mér til að verðskulda að vera ekki í liðinu. Það þýðir samt ekkert að kvarta yfir því," sagði framherjinn.

Anthony var tekinn inn í stjörnuleikinn sem varamaður fyrir meiddan leikmann árið 2006 og var kosinn í byrjunarliðið í fyrra. Hann hefur hinsvegar aldrei hlotið náð fyrir augum þjálfara deildarinnar þegar þeir velja varamennina í stjörnuliðin.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×