Körfubolti

Dallas réð ekkert við Tony Parker og Spurs jafnaði metin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan var ánægður með Tony Parker í leiknum í nótt.
Tim Duncan var ánægður með Tony Parker í leiknum í nótt. Mynd/GettyImages

Tony Parker skoraði 38 stig og gaf 8 stoðsendingar í öruggum 105-84 sigri San Antonio Spurs á Dallas Mavericks í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt en með honum jafnaði San Antonio liðið metin í 1-1.

Dallas vann fyrsta leikinn 105-97 sem fór einnig fram í San Antonio en með sigri í nótt þá hefði Spurs-liðið tapað tveimur heimaleikjum í röð í úrslitakeppni í fyrsta sinn síðan 2002.

Parker ætlaði ekki að láta það gerast og var kominn með 19 stig strax í fyrsta leikhluta eða jafnmörg stig og allt Dallas-liðið. Parker endaði leikinn á að nýta 16 af 22 skotum sínum.

„Þú verður að mæta í sóknarhug í hverja einustu sókn ef ekki til að skora þá til að skapa eitthvað fyrir félagana," sagði Parker sem náði aðeins að skora tvær körfur í seinni hálfleik á fyrsta leiknum og var því augljóslega einbeittur í að gera betur en þá. „Við reyndum fimm varnarmenn á móti honum," sagði Jason Terry, leikmaður Dallas.

Næstu tveir leikir fara fram í Dallas en Dallas Mavericks hefur ekki unnið seríu í úrslitakeppni síðan 2006 þrátt fyrir að vera með mjög frambærilegt lið. „Það er ekki svo slæmt að vinna einn af tveimur á þessum erfiða útivelli í San Antonio. Það er samt engin ánægður með það eftir að hann er búinn að vinna fyrsta leikinn," sagði Dirk Nowitzki, leikmaður Dallas.

Jason Terry skoraði 16 stig fyrir Dallas, Dirk Nowitzki og Jason Kidd skoruðu báðir 14 stig og Josh Howard fór úr því að skora 25 stig í fyrsta leiknum í að skora aðeins sjö stig í nótt.

San Antonio liðið þurfti engin risaframlög frá öðrum leikmönnum þökk sé stórleiks Tony Parker. Tim Duncan var með 13 stig og 11 fráköst og Drew Gooden skoraði 13 stig.

 



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×