Körfubolti

Iceland Express-deild kvenna: KR vann toppslaginn

Ómar Þorgeirsson skrifar
Margrét Kara Sturludóttir átti góðan leik fyrir KR í kvöld.
Margrét Kara Sturludóttir átti góðan leik fyrir KR í kvöld. Nordic photos/AFP

Heil umferð fór fram í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta í kvöld þar sem hæst bar að KR vann toppslaginn gegn Hamar í Hveragerði og Vesturbæjarliðið er nú búið að vinna alla sex leiki sína í deildinni.

KR var alltaf skrefinu á undan Hamri í leik tveggja efstu liða deildarinnar í Hveragerði í kvöld og leiddi 10-19 eftir fyrsta leikhlutann og staðan var 24-33 í hálfleik.

KR fór inn í lokaleikhlutann með tólf stiga forskot 35-47 en Hamar náði að minnka muninn niður í sex stig þegar um fimm mínútur lifðu leiks en KR hélt haus og sigldi góðum sigri í land en lokatölur urðu 51-62.

Margrét Kara Sturludóttir var stigahæst hjá KR með 23 stig en Hildur Sigurðardóttir kom næst með 15 stig og 10 fráköst. Hjá Hamri var Kristrún Sigurjónsdóttir stigahæst með 19 stig en Sigrún Sjöfn kom næst með 13 stig og 14 fráköst.

Mikil spenna var í Njarðvík í kvöld þar sem Haukar voru í heimsókn og grípa þurfti til framlengingar en staðan var jöfn 76-76 eftir fjórða leikhluta. Í framlengingunni slökknaði aftur á móti algjörlega á gestunum í Haukum og Njarðvík skoraði 19 stig gegn aðeins 4 stigum Hauka og lokatölur urðu 95-80.

Úrslit kvöldsins:

KR-Hamar 51-62

Keflavík-Snæfell 83-56

Njarðvík-Haukar 95-80 (eftir framlengingu)

Valur-Grindavík 48-60






Fleiri fréttir

Sjá meira


×